131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[18:38]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þingmaður kveiki upp í fleirum en mér (EOK: Það er gott.) vegna þess að með svona tali er verið að kveikja í öllu kjaraumhverfinu. Ég er ekki endilega að gráta það, alls ekki. Mér finnst gott að launafólk vakni upp og undirbúi sig undir komandi kröfugerð og fái hvatningu af því tagi sem það hefur fengið hér.

En varðandi samningana sem gerðir voru 1990 er það rétt sem hv. þingmaður segir, að ég stóð að þeim fyrir hönd BSRB á sínum tíma og við gerum það mjög eindregið. Það voru að mörgu leyti mjög erfiðir samningar því að í kjölfarið, eins og við munum, voru sett lög á háskólamenn. Það var mjög erfitt, erfitt í þeirra röðum og erfitt í samskiptum okkar í milli í langan tíma á eftir.

Ég tel hins vegar og hef gert grein fyrir því á öðrum vettvangi að undirrótin að þeim vanda sem þá reis hafi verið tvíþætt, annars vegar sú að háskólamenn komu ekki að þessu sameiginlega samningsborði á þeim tíma en gerðu síðan kjarasamning sem ég hafði margt við að athuga og gagnrýndi harðlega opinberlega á þeim tíma þótt ég harmaði lögin sem sett voru.

En hv. þingmaður gleymir því að ég reyndi að skýra þetta samhengi hér áðan í ræðu minni. Þegar hann segir að sami hluturinn sé að gerast nú og gerðist þá, þá er það alrangt vegna þess að á þeim tíma var leitað eftir samstöðu allra hreyfinga launafólks í landinu (Forseti hringir.) um að sameinast um það verkefni að keyra niður verðbólguna og samtökin gengust að uppistöðu til inn á þessa stefnu. (Forseti hringir.) Það hefur hins vegar ekki gerst núna.