131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[18:40]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það einnig rangt hjá hv. þingmanni að ég hafi verið að ráðast á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Ég var að vekja athygli á því að grundvallarmunur er á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna og hins almenna markaðar. Og núna þegar við vitum að hækkaður lífaldur mun hafa í för með sér skerðingu á hinum almenna markaði verður þetta óskaplega erfitt og falist getur hrein sprengjuhætta í þessum gríðarlega aðstöðumun og gríðarlega mikla mun á kjörum opinberra starfsmanna og hins almenna markaðar. Þetta er stórhættulegt og ég er að vekja athygli á því hvílík hætta sé í þessu fólgin. Þess vegna er líka athyglisvert ef það á að endurtaka sig enn og aftur að ríkisstarfsmenn eigi rétt á kröfum um meiri hækkanir en menn á hinum almenna markaði. Þetta er stórhættuleg þróun. Ég vara við henni. Ég er hvorki með belging hér né að taka bakföll vegna þess. Það er rangt hjá hv. þingmanni. Ég er að vekja athygli á þeirri hættu sem í þessu er fólgin, að mismuna fólki svona rosalega í einu þjóðfélagi. Það er til séra Jón, það eru opinberir starfsmenn og við þingmenn, og svo er hinn almenni markaður. Mismunurinn er alltaf að verða meiri og meiri og ég óttast að soðið geti upp úr í samfélaginu með því að mismuna fólki svona rosalega eins og raun ber vitni.