131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda.

299. mál
[18:48]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um frumvarpið sem, eins og hæstv. ráðherra nefnir, þarf að fá umfjöllun í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Þó staldra ég við frumvarpið þegar fram kemur. Ég held að það sé mjög mikilvægt að jafnræði sé á milli launafólks og atvinnurekenda þegar skipað er í stjórnir lífeyrissjóðanna. Ég er ekki viss um að þess sé fyllilega gætt eins og frumvarpið lítur út, nokkuð sem við þurfum að skoða.

Þarna er afnuminn réttur Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins að tilnefna fulltrúa í stjórn. Ég vek athygli á því, eins og kom reyndar fram í máli hæstv. ráðherra, að í verulegum mæli er um lífeyrisréttindi hjá opinberum starfsmönnum að ræða í sjóðnum. Mér er ekki kunnugt um hve margir úr þeim röðum eru greiðendur í þann sjóð. Ætli stærsti hópurinn sem greiðir í Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda séu ekki póstmenn, ég gæti trúað því.

Áður komu lífeyrisþegarnir úr öllum starfshópum ríkisins. Fólk sem ekki hafði fengið fastráðningu og greiddi í Söfnunarsjóðinn af þeim sökum átti ekki rétt á að greiða í LSR.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um frumvarpið núna en tel mikilvægt að málið fái mjög góða skoðun í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og verði sent út til kynningar hjá öllum hlutaðeigandi aðilum.