131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[18:54]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hér er mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001.

Tilgangur frumvarpsins er að skýra reglur um auðkennisnúmer fasteigna, styrkja stjórnsýslu við framkvæmd fasteignamats og marka fjárhagsgrundvöll Fasteignamats ríkisins til næstu ára til að stofnunin megi halda og þróa áfram Landskrá fasteigna.

Mikilvægt er að fasteignir séu auðkenndar með glöggum, einföldum og óvefengjanlegum hætti. Auðkenni fasteigna samkvæmt lögunum hafa verið fastanúmer og landnúmer. Auk þessara númera hefur verið notað svokallað heitinúmer. Það hefur valdið vandkvæðum í framkvæmd að hafa ekki skýrt samheiti þessara númera, sem hér er lagt til að verði fasteignanúmer, þar sem það fer eftir stöðu og eðli fasteignar hvert fasteignanúmer hennar er.

Fasteignamat er mikilvægur grunnþáttur í ýmsum ákvæðum skattalaga bæði hvað varðar sveitarfélög og ríkissjóð. Þess vegna er mikilvægt að fasteignamatið byggi á traustum og góðum grunni og að málsmeðferð við ákvörðun fasteignamats sé vönduð og í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Lagt er til að stjórnsýslan verði styrkt með því að kveða skýrt á um að ákvörðun um fasteignamat sem tekin er á grundvelli skráningarupplýsinga um nýjar og breyttar fasteignir taki gildi strax við skráningu í Landskrá fasteigna en sú tilhögun er í samræmi við núverandi framkvæmd. Nýja matsverðið gildi síðan með þeim almennu breytingum sem á því geta orðið eða þar til því er hrundið með nýju mati.

Umsýslugjald sem nam 0,025 prómillum af brunabótamati var lögfest árið 1994 í tengslum við að Fasteignamati ríkisins var falið að halda brunabótamatsskrá og annast framkvæmd brunabótamats að hluta. Stofnunin tók síðan alfarið við framkvæmd brunabótamats árið 1999. Þegar stofnuninni var falið að mynda og halda Landskrá fasteigna frá 1. janúar 2001 var lögfest að umsýslugjaldið yrði 0,1 prómill af brunabótamati en félli niður í árslok 2004.

Nú hefur komið í ljós að nauðsynlegt er að framlengja heimildina til umsýslugjalds um fjögur ár til viðbótar til að hægt sé að byggja Landskrána upp með þeim hætti sem ráðgert var í upphafi og taka jafnframt til við þau nýju atriði sem ákveðið hefur verið að leggja til verkefnisins, t.d. með nýjum jarðalögum.

Virðulegi forseti. Þetta eru meginatriði frumvarpsins. Ég legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.