131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

321. mál
[18:58]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

Tilgangur frumvarpsins er að veita samningum samtaka aðila vinnumarkaðarins um málsmeðferð í ágreiningsmálum, um hvort laun og ráðningarkjör starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði séu í samræmi við ákvæði laga og kjarasamninga, sama almenna gildi og samningar þeirra um laun og önnur starfskjör, sbr. 1. gr. laganna.

Litið hefur verið svo á að hlutverk samtaka aðila vinnumarkaðarins sé að fylgjast með því að kjarasamningar séu haldnir á innlendum vinnumarkaði. Byggir sú venja á þeirri meginreglu að aðilarnir semja um kaup og kjör launafólks í frjálsum kjarasamningsviðræðum. Þar af leiðandi hefur hvorki tíðkast að opinberir aðilar hafi viðhaft sérstakt eftirlit með því að atvinnurekendur haldi gerða kjarasamninga né hvort efni þeirra brjóti hugsanlega í bága við innlenda löggjöf. Verður það því að teljast eðlilegt að aðilarnir semji jafnframt um það í frjálsum samningaviðræðum hvernig eftirliti með launum og öðrum starfskjörum skuli háttað telji þeir sérstaka þörf á því.

Að teknu tilliti til framangreinds er það skoðun mín, hæstv. forseti, að þýðingarmikið sé að samningar aðilanna um meðferð ágreiningsmála, um hvort laun og ráðningarkjör starfsmanna séu í samræmi við lög og gerða kjarasamninga, hafi sama almenna gildið og almennir kjarasamningar hafa. Á það einkum við svo koma megi í veg fyrir að atvinnurekendur eða launamenn sjái sér hag í því að segja sig úr aðildarsamtökum á vinnumarkaði í þeim tilgangi einum að komast undan samningum þeirra um þetta efni. Þar með er jafnframt komið í veg fyrir að launamenn verði fyrir þrýstingi til að segja sig úr stéttarfélögum sínum í framangreindum tilgangi.

Gert er ráð fyrir að þeir samningar sem vísað er til í frumvarpinu taki einkum til hópa launamanna sem standa verr að vígi í samanburði við aðra hópa á innlendum vinnumarkaði. Þannig liggur það mat, um hvaða hópa slíkir samningar skuli gilda, alfarið í höndum samtaka aðila vinnumarkaðarins. Þegar hafa samtök aðila á almenna vinnumarkaðnum séð ástæðu til þess að gera með sér slíkan samning en hann fjallar um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Nær sá samningur einungis til erlendra starfsmanna en ekki annarra launamanna á innlendum vinnumarkaði. Má rekja tilurð þessa frumvarps einmitt til þessa samnings.

Í forsendum samnings aðilanna kemur m.a. fram að það að ákveðnar breytingar eru að verða á samsetningu vinnuafls vegna fjölgunar útlendinga á íslenskum vinnumarkaði á ekki að leiða til röskunar á gildandi fyrirkomulagi um ákvörðun launa og annarra starfskjara launafólks með kjarasamningum. Enn fremur er tekið fram að í tilvikum þegar kjarasamningar eru ekki virtir grafi það undan starfsemi annarra fyrirtækja, spilli forsendum eðlilegrar samkeppni og dragi úr ávinningi alls samfélagsins af traustu og heilbrigðu atvinnulífi.

Hæstv. forseti. Því er ekki að leyna að ég bind vonir við að framangreint samkomulag og frumvarp þetta verði til að auðveldara verði að sporna gegn hættunni á félagslegum undirboðum á íslenskum vinnumarkaði. Er jafnframt verið að viðhalda því vinnumarkaðskerfi sem hér hefur þróast í gegnum tíðina og reynst okkur Íslendingum mjög vel. Í samningnum er áhersla lögð á hlutverk trúnaðarmanna stéttarfélaga en hlutverk þeirra er ekki hvað síst að gæta þess að gerðir kjarasamningar séu haldnir.

Í tilvikum þar sem rökstuddur grunur er um brot gegn viðkomandi kjarasamningi eða lögum sem varða starfskjör erlends launafólks hefur trúnaðarmaður á grundvelli samkomulagsins rétt á að yfirfara gögn um laun eða önnur starfskjör viðkomandi atvinnurekenda. Sé trúnaðarmaður ekki á vinnustað hefur fulltrúi viðkomandi stéttarfélags sömu heimildir og trúnaðarmaður til að yfirfara gögn og ber sömu skyldur. Í samkomulaginu er síðan kveðið á um ákveðna vinnureglu sem viðhafa skal við framkvæmdina.

Hafi ekki tekist að leysa ágreining sem kann að rísa á grundvelli samkomulagsins er heimilt að vísa þeim ágreiningi til sérstakrar samráðsnefndar Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Nefndin skal skipuð fjórum fulltrúum, tveimur skipuðum af Alþýðusambandinu og því landssambandi sem málið varðar og tveimur fulltrúum skipuðum af Samtökum atvinnulífsins. Nefndin hefur heimildir til að krefjast nauðsynlegra gagna frá viðkomandi atvinnurekanda um laun og önnur starfskjör þeirra erlendu starfsmanna sem málið varðar og eftir því sem við á um starfsréttindi þeirra. Sérstaklega er kveðið á um trúnaðarskyldu samráðsnefndarinnar og er nefndarmönnum óheimilt að afhenda eða greina þriðja aðila frá efni þeirra upplýsinga sem aflað er frá atvinnurekanda, trúnaðarmanni eða fulltrúa stéttarfélags. Skal niðurstaða nefndarinnar síðan kynnt málsaðilum.

Frumvarpið gerir þó ráð fyrir því að þegar slíkar samráðsnefndir sem lýst er hér að framan taka til starfa á grundvelli samningsaðila hafi ófélagsbundnir aðilar máls tækifæri á að tilnefna eigin fulltrúa. Á þetta bæði við um atvinnurekendur og launafólk sem í hlut á.

Þetta fyrirkomulag þykir eðlilegt í ljósi þess að þeir aðilar er kjósa ekki að vera félagsmenn í tilteknum félögum fái að velja sér fulltrúa til að gæta hagsmuna sinna. Þá ber að taka fram að samningar aðila vinnumarkaðarins koma ekki í veg fyrir að málsaðilar geti leitað með ágreiningsefni sín beint til félagsdóms eða almennra dómstóla eftir atvikum. Á þetta bæði við um þá sem eru félagsmenn í stéttarfélögum eða samtökum atvinnurekenda og þá sem kjósa að standa utan félaga.

Hæstv. forseti. Ég tel þá leið sem hér er lagt til að verði farin mun betri lausn en að koma á opinberu eftirlitskerfi með launakjörum starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði. Það hlýtur að vera mikilvægt að hlúa að því kerfi sem vinnumarkaðurinn okkar stendur nú þegar styrkum fótum á og hefur verið að þróast síðustu áratugi í nánu samstarfi stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. félagsmálanefndar.