131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

321. mál
[19:06]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka að sú leið sem hér er mælt með að verði farin er til þess fallin að sporna gegn hættunni á félagslegum undirboðum á íslenskum vinnumarkaði. Þetta er sú leið sem samtök aðila á almennum vinnumarkaði hafa komið sér saman um sem ég tel einnig mjög mikilvægt eins og fram kom í máli hv. þm. Helga Hjörvars.

Við Íslendingar höfum langa hefð fyrir því að samtök aðila vinnumarkaðarins, ekki síður en stjórnvöld, hafa borið ábyrgð á vinnumarkaðskerfinu sem slíku. Það kerfi hefur reynst okkur farsælt fram til þessa og það hlýtur að vera vilji okkar hér á Alþingi að viðhalda því kerfi eins vel og við getum.

Það frumvarp sem hér er til umræðu var unnið í nánu samráði við fulltrúa Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins og byggist á bókun við samning þeirra um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði en þar er því beint til mín sem félagsmálaráðherra að samkomulaginu verði veitt almennt gildi á sama hátt og gert hefur verið að því er almenna kjarasamninga varðar. Því er þetta lagt til hér, hæstv. forseti.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um umfjöllun um starfsmannaleigur er því til að svara að ég skipaði síðasta sumar hóp til að fara yfir þau mál. Að þeim hópi koma aðilar vinnumarkaðarins ásamt og með fleira fólki. Sá hópur er að störfum. Þetta er, eins og ég veit að hv. þingmaður gerir sér grein fyrir, margslungið viðfangsefni sem er til umfjöllunar, ekki bara hér heldur líka í löndunum í kringum okkar. Ég vænti þess og vona að áður en langt um líður fái menn að sjá niðurstöðu þessa hóps, hvort og þá með hvaða hætti ástæða er til að bregðast við þeirri breyttu stöðu sem uppi er á íslenskum vinnumarkaði með tilliti til starfsmannaleigna.

Hæstv. forseti. Að lokum ítreka ég tillögu mína um að þessu máli verði vísað til 2. umr. og hv. félagsmálanefndar.