131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

vLánasjóður íslenskra námsmanna.

330. mál
[19:28]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi og styð innihald þess heils hugar. Efni þess var meðal baráttumála sumra stjórnmálaflokkanna fyrir síðustu kosningar. Samfylkingin setti málið mjög á oddinn og Framsóknarflokkurinn einnig, minnir mig. BHM barðist einnig mjög fyrir því að flokkarnir kynntu sjónarmið sín í þessu máli enda um mikið hagsmuna- og réttlætismál að ræða fyrir stóran hóp af fólki.

Eins og hæstv. ráðherra kom ágætlega inn á snertir málið sérstaklega þá sem hafa nýlokið námi og eru að koma sér upp húsnæði, fjölskyldu og öðru á fyrstu árum eftir námslok. Afborganir af námsárunum geta þá oft verið verulega íþyngjandi. Lækkun endurgreiðsluhlutfallsins er mjög gott mál og mikil kjarabót fyrir fjölda fólks sem sannarlega þarf á því að halda. Þá er breikkun tekjustofnsins, með því að taka inn fjármagnstekjurnar, einnig hið besta mál.

Haft hefur verið á orði að formaður endurskoðunarnefndarinnar, hv. þm. Gunnar Birgisson, ætti orðu skilið fyrir að hafa komið málinu í gegn. Ég þekki ekki starf nefndarinnar en tek undir þakkir til hv. þingmanna Gunnars Birgissonar og Dagnýjar Jónsdóttur fyrir niðurstöðu nefndarinnar, þó svo mörgu öðru megi bæta við við endurskoðun á starfsemi Lánasjóðs íslenskra námsmanna og þörf sé á nauðsynlegum aðgerðum til að styrkja verulega hlutverk sjóðsins sem félagslegs jöfnunarsjóðs sem tryggir raunverulega jafnrétti til náms. Starfsemi sjóðsins er að mínu mati mikill lykill að hvers kyns eflingu menntastigsins á Íslandi og margt sem þarf að skoða þar.

Hæstv. ráðherra nefndi þá nýbreytni sem Landsbanki Íslands tók upp, að gangast í ábyrgðir fyrir námsmenn gagnvart sjóðnum gegn ákveðnu ábyrgðargjaldi. Sú þjónusta bankans er að sjálfsögðu hið besta mál, en Samfylkingin lagði fram frumvarp þar sem sérstaklega er tekið á því að ábyrgðarmannakerfið verði lagt af. Mig minnir að sex hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafi einnig lagt fram þingsályktunartillögu sl. vetur sem kvað á um að ábyrgðarmannakerfið yrði lagt af. Það hefði því verið mjög til bóta ef lagt hefði verið til með endurskoðuninni og breytingunni á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, eins og virðist vera nokkur pólitísk samstaða um nema helst hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, að leggja ábyrgðarmannakerfið af. Reyndar minnist ég þess að í fyrirspurnatíma fyrir tveimur árum tók þáverandi hæstv. menntamálaráðherra, Tómas Ingi Olrich, nokkuð undir þau sjónarmið að endurskoða þyrfti ábyrgðarmannakerfið og jafnvel leggja það af. Það hefur ekki gengið eftir, en fyrst umræðan er komin upp um að endurskoða sjóðinn, efla hlutverk hans og bæta kjör námsmanna og þeirra sem taka þar lán væri hægt að gera það núna.

Ég tel mjög mikilvægt að í framhaldi af þessu fari fram umræða um breytingu á lánakerfinu þannig að hluti af námslánum gæti hugsanlega breyst í styrk hafi námslokum verið náð á tilteknum tíma. Ef námslok næðust á fyrirfram tilgreindum tíma, sem er að sjálfsögðu breytilegur eftir námi, mundi hluti námslána breytast í styrk. Það væri mjög hvetjandi fyrirkomulag fyrir námsmenn til að ljúka námi sínu hraðar en ella og verulega til bóta og sparnaðar fyrir háskólana. Allir vita að ef námsmenn eru of lengi, ef svo má segja, að ljúka námi er það dýrt fyrir skólana. Það er því ekki víst að aukin útgjöld til menntamála ykjust svo verulega ef breytingin yrði til þess að tiltekinn fjöldi lyki námi miklu hraðar og færi hraðar í gegnum skóla. Kominn væri mikill hvati til þess.

Í hv. menntamálanefnd verður að sjálfsögðu tekin breið umræða um málið. Ég fagna því að endurgreiðsluhlutfallið lækkar þannig að verulega munar um. Ég fagna því að málið hafi náð fram að ganga og ítreka þakkir mínar til endurskoðunarnefndarinnar og þeirra sem bera fram málið. Ég tel að þær breytingar sem ég nefndi á hlutverki sjóðsins séu nauðsynlegar og mikilvægar til að efla hlutverk hans sem félagslegs jöfnunarsjóðs. Einnig held ég að við verðum að taka umræðu um hvort einhver flötur sé á því að við ákveðna félagslega aðstöðu eða við ákveðinn aldur verði framhaldsskólanemar lánshæfir, hvort sem það er skilgreint við 18, 19 eða 20 ára aldur eða við ákveðna félagslega stöðu. Sú umræða var tekin fyrr í vikunni að litlu leyti þegar hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir flutti þingsályktunartillögu um stuðning við einstæða foreldra í námi. Ég tel sjálfsagt að skoða kosti og galla þess að framhaldsskólanemar séu lánshæfir við ákveðnar aðstæður og að reikna út kostnaðinn við slíkt fyrirkomulag.

Ég vil einungis nefna við 1. umr. um þetta prýðilega mál, að til að lánasjóðurinn geti staðið undir hlutverki sínu sem félagslegur jöfnunarsjóður sem tryggir raunverulegt jafnrétti til náms þarf að gera mjög margt annað til að hann nái að sinna því hlutverki eins og til er ætlast. Þetta er þó ágætt fyrsta skref og vonandi verður því fylgt eftir af fullum krafti.

Það verður fróðlegt að hlýða á ræðu hv. þm. Gunnars Birgissonar á eftir hvaða augum hann lítur aðrar breytingar á starfsemi sjóðsins sem ná vonandi fram að ganga á næstu missirum. Ég veit að hann hefur lagt á sig mikla vinnu til að ná þessari breytingu fram og ég þakka honum fyrir það. Hann á heiður skilið og hrós ásamt hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur og gott að málið er komið fram, en meira þarf að gera til að sjóðurinn nái að sinna hlutverki sínu.