131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

330. mál
[19:43]

Gunnar Birgisson (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, sem hæstv. menntamálaráðherra hefur talað fyrir.

Í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar var kveðið á um endurskoðun á lögunum. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að leiða vinnuna í nefnd sem hæstv. menntamálaráðherra skipaði og var sú vinna mjög ánægjuleg. Það var mikill samhugur í nefndinni og lítill ágreiningur þegar kom til loka. Ég ætla ekki að fara í gegnum einstakar greinar frumvarpsins, hæstv. menntamálaráðherra hefur þegar gert það mjög vel, en rétt að fara yfir nokkrar hugmyndir sem nefndin lagði upp með.

Það kostar náttúrlega gífurlega fjármuni að lækka endurgreiðsluhlutfallið úr 4,75% í 3,75% og spurning hvort það hefði átt að vera minna. Það voru hugmyndir um að lækka það í 4,25% og 4% og annað slíkt, en ef við hefðum farið í heilu lagi niður án þess að gera nokkuð annað mundi það kosta á bilinu 700 millj. kr. til 1 milljarðs. Það var töluvert stór biti og var því farin sú leið að breikka tekjustofninn sem lánin eru reiknuð út frá, tekjum einstaklinga. Það var því ekki eingöngu útsvar heldur var einnig tekinn fjármagnstekjuskattur í dæmið. Það er að vísu mjög óreglulegur skattur, erfitt kannski að átta sig alveg á honum og færri einstaklingar sem greiða hann. En þetta er skattstofn sem mun verða jafnari og breiðari eftir því sem árin líða því íslenska þjóðin er alltaf að verða ríkari og ríkari og alltaf verið að færa meiri og meiri fjármuni á milli kynslóða.

Þessi varð sem sagt niðurstaðan og forsendurnar sem nefndin lagði upp með í þessu og við skulum vona að það gangi eftir, að raunlaunahækkun á milli ára verði 1,25% þannig að við reiknum með að ekki verði kjaraskerðing heldur hækki laun nettó um 1,25%.

Við vorum með vexti námslána áfram í 1%. Ein hugmyndin var að hækka vexti námslánanna, á móti mundu þau lækka endurgreiðsluhlutfallið og lengja þar af leiðandi endurgreiðslutímann. Við erum að tala um að með þessu fari endurgreiðslutíminn úr 17 árum í 22.

Þetta voru hugmyndir. Það voru líka hugmyndir um að hafa vexti á námslánum og setja þá strax á, þ.e. á námstíma, en þeir byrja ekki að telja fyrr en að námi loknu. Eftir mikla útreikninga og margar hugmyndir var ákveðið að sleppa þeim og fara þá leið að nota fjármagnstekjuskatt sem viðbótarútreikningsstofn út frá þessu máli.

Eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra má reikna með að þetta verði fleiri aðilum hvatning til að taka lán. Við reiknum með að þessi aukning verði 1% og aukinheldur reiknum við með að með lengri endurgreiðslutíma muni afskrifast meira af lánum. Við reyndum að taka þetta allt með í reikninginn. Nokkrir aðilar komu að máli við mig sem ekki hafa tekið lán, þ.e. þeir hafa unnið fyrir sér með náminu og stundum verið einu ári eða jafnvel tveimur árum lengur í skóla til að þurfa ekki að taka lán til að geta verið kvittir við þennan sjóð að námi loknu. Þeir vildu geta verið betur í stakk búnir til að koma yfir sig húsnæði og annað slíkt. Í ljósi nýjustu tíðinda af þeim markaði er kannski önnur staða uppi, en þeir spyrja: Hvað ætlar ríkið að gera fyrir okkur sem tókum ekki lán? Eru það bara þeir sem skulda sem fá alltaf einhverjar tilfærslur og betri kjör en við sem skuldum ekki? Þetta er góð spurning. Hvað erum við að gera fyrir þá, erum við með þessu að hvetja fleiri til að taka lán? Þetta eru allt spurningar sem við verðum að taka með í reikninginn. Styrkurinn, þ.e. styrkur ríkisins í þessu máli — það er verið að tala hérna um styrki — er 50%, vaxtaniðurgreiðslur hjá sjóðnum eru 50%, þ.e. ef námsmaður tekur krónu kemur ríkið með krónu á móti. Ríkið er í raun og veru með þessu að greiða niður 50%, þ.e. 3,7 milljarða sem verið er að tala um að ríkið greiði hér niður í beinum framlögum með niðurgreiðslu á vöxtum og afskriftum á töpuðum kröfum, rekstri sjóðsins og öðru slíku.

Það er hægt að fara fleiri leiðir í þessu. Það er hægt að lána, eins og sum Norðurlöndin gera, á markaðskjörum, hafa markaðskjör á vöxtum og síðan fái stúdentar eða lánþegar beina styrki frá ríkinu með einhverjum hætti. Sums staðar gengur þetta þokkalega, sums staðar á Norðurlöndunum hefur þetta verið reynt og sumir vilja kannski snúa frá því. Ég held að kerfið okkar sé mjög gott, lánasjóðurinn er félagslegur jöfnunarsjóður og langtum meiri félagslegur jöfnunarsjóður en sjóðirnir, held ég, víðast annars staðar á Norðurlöndunum, ég tala ekki um enn annars staðar. Við megum vera mjög hreykin af því kerfi sem við erum með hér. Ég er búinn að vera formaður um alllanga hríð og get vottað að margir hafa heimsótt okkur, m.a. Bandaríkjamenn sem voru hér tíðir gestir á tímabili, til að taka út uppbyggingu sjóðsins okkar þar sem þeir voru að byggja upp sitt kerfi.

Aðallinn í þessu frumvarpi er lækkunin á endurgreiðsluhlutfallinu varðandi útreikning á tekjum en það eru líka nokkur önnur atriði, t.d. að þeir sem hafa tekið lán frá 1992 geta skuldbreytt án sérstaks gjalds fyrir það. Þess vegna liggur á að koma frumvarpinu í gegnum þingið fyrir jólahlé til að þeir geti byrjað á því strax eftir áramót. Við reiknum með að u.þ.b. helmingurinn af þeim lánþegum sem þar tóku lán muni nýta sér það. Reiknað er með að það verði fram á næsta haust.

Síðan eru alls konar snyrtingar í frumvarpinu sem ég ætla ekki að fara yfir en eru allar til bóta nema það fellur niður lánaflokkurinn markaðskjaralán. Við settum hann inn til að fólk gæti fengið lán í undantekningartilfellum, fólk sem lenti í vandamálum einhverra hluta vegna og var hægt að nota lánaflokkinn í neyðartilfellum. Nú eru allir að bjóða þetta þannig að sjóðurinn var kominn í samkeppni við bankana. Við fengum athugasemdir frá þeim og þar af leiðandi lögðum við til að þessi lánaflokkur dytti út.

Annað merkilegt hefur líka gerst með lánasjóðinn. Starfsmenn sjóðsins hafa ásamt Landsbankanum fundið leið til að Landsbankinn ábyrgist lán einstakra lántakenda og að ekki þurfi ábyrgðarmenn til að skrifa upp á lánin. Það er bylting í þeim málum. Það þýðir að Landsbankinn tryggir þá þessi lán gagnvart sjóðnum í allt að 15 ár. Maður spyr sjálfan sig hvernig það gat gerst á Íslandi að engar tryggingar væru, eins og hefur verið krafa hjá mörgum, að lánin skyldu vera algjörlega ótryggð, eingöngu lánþeginn kvittaði upp á. Ég held að skil á lánunum mundu versna verulega við það. Ég held að þessi lending hafi verið góð en annars staðar taka menn þetta mjög alvarlega, t.d. í Bandaríkjunum er það þannig að ef menn greiða ekki af námslánum sínum er lokað á þá alls staðar í kerfinu. Víða annars staðar er því annar mórall í þessu, þ.e. hvernig tekið tekið er á vanskilum.

Ég fagna þessu frumvarpi, það er til verulegra bóta fyrir þá sem hafa tekið lán. Greiðslubyrði þeirra minnkar strax, greiðslubyrði ungs fólks sem er komið úr námi og skuldar einhverra hluta vegna og þá léttir þetta byrðina. Endurgreiðslutíminn lengist um fimm ár og léttir mönnum byrðarnar í þeim málum.

Ég tel líka að önnur atriði frumvarpsins séu verulega til bóta, t.d. málskotsnefndin sem hefur verið í augum okkar, stjórnarmanna í sjóðnum, mjög sérkennilegt apparat þar sem við höfum ekkert með það að gera hvað hún segir. Úrskurðirnir eru endanlegir. Námsmaðurinn, kærandinn, getur aftur á móti farið þá leið að kvarta til umboðsmanns Alþingis ef honum líkar ekki. Með þessu held ég að báðir aðilar geti farið þá leið.

Að öðru leyti held ég að ég bara óski okkur til hamingju með þetta frumvarp, og sérstaklega hæstv. menntamálaráðherra. Hún dreif strax í þessu og eins og góður ráðherra er fer hún strax í málin og lætur hendur standa fram úr ermum. Vonandi verðum við búin að afgreiða þetta fyrir jól og gefum þjóðinni ný lög í jólagjöf.