131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

330. mál
[19:55]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið enda er erindi mitt fyrst og fremst að taka undir fagnaðarlæti manna með þetta frumvarp. Það er mjög jákvætt, svo langt sem það nær, að hér eru loks efndir á baráttumáli sem verið hefur til umræðu í mörg undangengin ár. Endurgreiðslubyrðin af námslánum verður létt frá því sem nú er og hefur verið um alllangt árabil. Það er alveg ljóst að það kerfi sem upp var sett og hefur gilt um endurgreiðslu námslána með tekjutengingu er réttlátt og sanngjarnt og um það er ekki að deila heldur hitt hvar menn setja mörkin, hversu þunga greiðslubyrði menn hafa, einkanlega fyrstu árin eftir að menn koma úr námi. Fyrir því gætu verið veruleg rök að hafa þetta jafnvel eitthvað breytilegt eftir því hvar á endurgreiðslutímanum menn væru staddir.

Þetta mál hefur verið til umræðu um alllangt árabil og m.a. tengst umræðum um jaðaráhrif í skattkerfinu og öðru í þeim dúr. Það er ljóst að tekjutengd endurgreiðsla námslána veldur auknum jaðaráhrifum þegar hún tengist tekjutengdum barnabótum, tekjutengdum vaxtabótum af húsnæðislánum o.s.frv. Þetta er jákvætt innlegg, bæði í því samhengi sem og auðvitað sérstaklega því að það bætir kjör þeirra sem eru að borga af námslánunum. Það getur að sjálfsögðu leitt til þess að einhver lán afskrifist í þeim tilvikum sem greiðslutíminn dugar ekki til að borga upp lánið, vissulega í ríkari mæli en endranær, en lengir í öðrum tilvikum fyrst og fremst endurgreiðslutímann.

Það er enginn vafi á því að námslánalöggjöfin og starfsemi Lánasjóðs íslenskra námsmanna er ein allra merkasta félagsmálalöggjöf og jafnréttislöggjöf sem hér hefur verið sett, er í raun og veru undirstaða þess sem menn kalla jafnrétti til náms. Þetta er félagslegur samábyrgur jöfnunarsjóður sem er í anda þess sem ég og minn flokkur viljum berjast fyrir og hafa sem undirstöðu hornsteina okkar í velferðarsamfélagi okkar.

Það voru merk tímamót þegar þetta kerfi komst á upp úr 1980, nokkurn veginn í núverandi mynd sinni. Mætti margt um baráttuna fyrir því segja sem og auðvitað þá baráttu sem síðan hefur verið háð um að verja þetta kerfi. Menn skulu ekki gleyma því í gleðilátum sínum hér að það hefur verið sótt að því og það hefur ekki verið sjálfgefið að það héldi velli í sinni mynd í gegnum tíðina. Ég man þessa baráttu alla saman meira og minna mjög vel, frá því að vera í stúdentaráði á þeim tíma sem kerfinu var komið á og hafa síðan setið á Alþingi allan tímann sem það hefur verið starfrækt í núverandi mynd sinni.

Tekist hefur verið harkalega á um ýmsar skerðingar sem gengið hafa yfir, bæði á framfærslugrunninum eða viðmiðununum og eins því þegar vextir voru teknir upp á námslán. Ég hef aldrei verið sáttur við þá og fagna því að sjálfsögðu sem hér kom fram í máli formanns nefndarinnar, hv. þm. Gunnars Birgissonar, að menn hurfu frá hugmyndum um að hækka þá.

Það er auðvitað ýmislegt fleira sem gæti verið ástæða til að taka til skoðunar í þessum efnum þó að kerfið sé í aðalatriðum gott og ég sé sammála því. Ég held að það hafi þegar til lengri tíma er litið og upp er staðið kosti umfram blönduðu kerfin sem eru t.d. annars staðar á Norðurlöndunum þar sem menn blanda saman lánum á fullum markaðsvöxtum og styrkjum. Ég held að það sé betra að hafa þetta á þessum grunni og helst vaxtalaus lán með tekjutengdri og hóflegri endurgreiðslu, ég held að það sé réttlátt og sanngjarnt og nái best í höfn þeim markmiðum sem menn auðvitað stefna að, að enginn þurfi að hrökklast frá námi vegna efnahags.

Það er áfram að ýmsu að hyggja í þessum efnum og ég nefni sérstaklega tvennt sem reyndar hefur sennilega komið fram hér áður hvort tveggja, þ.e. annars vegar hið stirðbusalega ábyrgðarmannakerfi sem þarna hefur verið lengi við lýði — ef ég veit rétt er það enn tvöfalt, a.m.k. var það þannig að menn þurftu fyrst að safna ábyrgðarmönnum vegna skammtímalánanna sem veitt voru á námstímanum og síðan aftur þegar lánunum var breytt í föst langtímalán. Þannig var þetta a.m.k. á minni tíð og árunum eftir að ég lauk námi og gerðist umboðsmaður fyrir marga félaga mína og jafnaldra sem voru í framhaldsnámi erlendis. Ég held að ég hafi komist upp í að vera umboðsmaður fyrir eina sex námsmenn sem staddir voru erlendis á þeim tíma og ég skrifaði að sjálfsögðu alltaf upp á sem ábyrgðarmaður á allri þessari súpu og er á einhverjum slíkum lánum enn þann dag í dag.

Hitt er svo það sem reyndar hefur verið borið inn á Alþingi af varaþingmanni þess sem hér talar, hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur, sem sat á þingi þangað til í gær í fjarveru minni, flutti gagnmerka tillögu að ég tel um að skipaður verði starfshópur til að móta tillögur um aðgerðir til að bæta aðstöðu einstæðra foreldra í námi með fjárhagslegum og félagslegum stuðningi. Þá er sérstaklega framhaldsskólastigið undir, þ.e. þegar einstæðir foreldrar, iðulega eftir nokkurt hlé á námi, fara aftur í skóla til að reyna að ljúka framhaldsskólanámi sínu án þess að hafa nokkurn sérstakan stuðning sem tekur mið af þeirra félagslegu aðstæðum og án þess að vera komnir í lánshæft nám. Þarna held ég að væri veruleg ástæða til að skoða hvort ekki er mögulegt að opna t.d. þessum einstaklingum á grundvelli tiltekinna viðmiðana og skilgreininga leið inn í lánasjóðinn eða að sérstakur stuðningur yrði tekinn upp til að jafna aðstæður nemenda sem svona háttar til um. Það eru auðvitað hlutir af því tagi sem er full ástæða til að halda áfram að skoða þó að þetta ágæta mál líti hérna dagsins ljós.

Auðvitað eru uppi deilur sem við þekkjum vel um sjálfa viðmiðunina, framfærslugrunninn og hversu vel menn eru haldnir af þeim lánum sem veitt eru á hverjum tíma miðað við framfærslukostnað í samfélaginu. Menn finna sjálfsagt seint hina endanlegu lausn í þeim efnum. Hið sama gildir um hluti eins og skerðingu lánsréttarins vegna tekna o.s.frv. Það eru hin praktísku útfærsluatriði sem menn hljóta á hverjum tíma að skoða.

Þetta er gott svo langt sem það nær og ég tek undir óskir manna og væntingar um það að þeir séu ekkert að mylja þetta með sér og afgreiði bara málið. Ég sé ekki neitt því til fyrirstöðu að drífa málið í gegn fyrir áramót þannig að það verði að lögum. Ekki veitir þá af að einhverjar jólagjafanna séu í þessa átt.