131. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2004.

Tilefni þingfundar.

[14:00]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ekki ætla ég að lengja þennan fund en mig langar til að spyrja: Til hvers er hann haldinn? Til hvers er verið að ræsa út fjölda starfsmanna þingsins til að dreifa einu þingmáli þegar það er algjörlega óskiljanlegt að einhverjar sérstakar nauður reki til þess að þingmálinu sé dreift í dag? Þegar það er skoðað kemur í ljós að jú, vissulega, varðar svolítill hluti þess það þing sem núna stendur yfir en að öðru leyti er áformað að festa í lög breytingar sem eiga ekki að taka gildi fyrr en eftir nokkur ár. Það liggur alveg ljóst fyrir að hæstv. fjármálaráðherra hefði getað lagt þetta frumvarp fram á mánudaginn og fengið sína eðlilegu umræðu um það einhvern tíma síðar í þeirri viku. Hvers vegna er þá verið að halda sérstakan útbýtingarfund til þess að þjóna einhverjum duttlungum hans? Óttast hæstv. fjármálaráðherra að svo miklar deilur standi til innan hans eigin raða að erfitt verði að koma þessu máli fram, eða hvað er það sem veldur því að halda þarf sérstakan útbýtingarfund?

Ég hef verið á þingi frá 1991 og vitaskuld hef ég verið viðstaddur marga slíka fundi en ég hef lært af þeirri reynslu að þeir hafa allir haft ákveðinn tilgang. Sá tilgangur helgast af því að greiða fyrir störfum þingsins, geta með hæfilegum og lögbundnum fyrirvara dreift nefndarálitum til að þau megi taka til umræðu án þess að leita þurfi sérstakra afbrigða. Hér er ekki um neitt slíkt að ræða, herra forseti. Hér er einungis að koma fram þingmál, að vísu eitt af gælumálum hæstv. fjármálaráðherra, en hvað veldur því að það þarf að kalla út fjölda starfsmanna þingsins bara til að halda þennan fund svo að hæstv. ráðherra geti talað fyrir málinu á þriðjudag í staðinn fyrir miðvikudag? Hér er ekki verið að fara vel með fólk eða fé, herra forseti.