131. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2004.

Tilefni þingfundar.

[14:06]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Nú skil ég hvernig liggur í málunum. Þetta er allt saman gert af sanngirni gagnvart stjórnarandstöðunni. Þetta er allt saman gert til að auðvelda stjórnarandstöðunni að halda fundi sína um helgina. Heyr á endemi, herra forseti. Það liggur við að ég bresti í hlátur þegar ég heyri þessar sérkennilegu og skondnu skýringar hæstv. fjármálaráðherra.

Er staðan virkilega þannig, herra forseti, að Alþingi sé fjarstýrt úr Stjórnarráðinu? Hæstv. fjármálaráðherra lýsti því í afskaplega ítarlegum smáatriðum hvernig hann komst að þeirri niðurstöðu að það væri best að hafa þessa umræðu á þriðjudaginn af því að það hentar honum best. Þá tekur hann upp símann og hringir í hæstv. forseta sem verður umyrðalaust við þeirri beiðni.

Ég tel, herra forseti, að þarna stappi nærri því að verið sé að misnota Alþingi. Ég verð að segja það. Það er ekkert sem mælir á móti því að þetta frumvarp sem vissulega er efnismikið og djúpt verði rætt í þaula í næstu viku. En herra trúr, ef þrjár vikur af starfstíma þingsins duga ekki til að afgreiða þetta mál er ég hræddur um að hæstv. fjármálaráðherra renni í grun um frekari átök um málið en ég sé fyrir, a.m.k. á þeim tíma sem líður fram að þingi. Auðvitað mun stjórnarandstaðan ræða málið í þaula. Hins vegar ætti á þremur vikum að takast að koma í gegn hvaða máli sem er ef það er ekki þeim mun vitleysislegra.

Þetta mál þekkja menn. Menn vita hvað í því felst. Hæstv. fjármálaráðherra talaði um að það væri þarft að koma því í umræðu hið allra fyrsta en það var leitt fyrir almannasjónir í gær af hæstv. ráðherra í fjölmiðlum.

Ég vil að endingu, herra forseti, mótmæla því að menn fari fram með vinnubrögðum af þessu tagi. Þessi fundur er fullkomlega óþarfur og er bara til að uppfylla einhverja duttlunga hæstv. fjármálaráðherra.