131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Loftslagssamningurinn og stefna Íslands.

[15:10]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra misskilur hrapallega grundvöll Kyoto-bókunarinnar. Kyoto-bókunin var skuldbinding þjóðríkja til að draga úr mengun, til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til þess að minnka líkurnar á þeim áhrifum sem nú blasa við, ekki hvað síst á norðurheimskautssvæðinu þar sem hlýnunin virðist ætla að verða helmingi hraðari en í öðrum heimshlutum. Hæstv. ráðherra leyfir sér að hælast um yfir þessu undanþáguákvæði sem fengið var fram eftir margra ára viðræður með miklu harðfylgi íslenskra embættismanna og það var ekki auðvelt að knýja það fram. Það var látið undan þrjósku og harðfylgi íslenskra embættismanna og íslenskra stjórnvalda á lokasprettinum til að unnt væri að ná saman Kyoto-bókuninni. Hæstv. ráðherra á ekki að leyfa sér að tala á þann hátt sem hann gerir, að koma í flokksstofnunina sína og hælast um út af undanþáguákvæðinu og láta svo í ljósi áhyggjur út af hlýnun lofthjúpsins á Norðurlandaráðsþingum.