131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Viðræður utanríksráðherra Íslands og Bandaríkjanna.

[15:14]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Í framhaldi af ferð sem hæstv. utanríkisráðherra Davíð Oddsson fór í til Bandaríkjanna og fundi sem hann átti með Colin Powell þann 16. nóvember sl. óskaði ég eftir utandagskrárumræðu á Alþingi um niðurstöðu þess fundar. Ég sé ekki að þessi utandagskrárumræða sé á dagskrá þessarar viku og þegar er liðin vika frá fundinum þannig að ég tel mig tilneyddan til að taka hér upp spurningu til hæstv. utanríkisráðherra um þennan fund.

Afskaplega lítið hefur heyrst í fjölmiðlum um hver niðurstaða fundarins sé. Hæstv. utanríkisráðherra sem ekki er þekktur fyrir mjög varfærnislegt orðalag hefur verið ákaflega varfærinn í fréttum sínum af þessum fundi. Við höfum heyrt að „telja megi“, „mönnum finnist“, „menn voni og treysti“ og því verður maður að velta fyrir sér hver raunveruleg niðurstaða sé af þessum fundi.

Það hlýtur að vera ákaflega mikilvægt fyrir okkur að fara að fá niðurstöðu í þá miklu óvissu sem ríkt hefur um framtíð varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Um það hljóta allir hv. þingmenn að geta verið sammála. Bæði þurfum við að létta óvissunni vegna þess varnarviðbúnaðar sem er á flugvellinum og ekki síður gagnvart þeim atvinnuhagsmunum sem Suðurnesjamenn hafa af veru varnarliðsins á Miðnesheiði.

Því þykir mér rétt að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hvað er í raun að frétta af þessum fundi? Megum við vænta þess á næstunni að fá einhverjar frekari fréttir en verið hafa af fundinum eða er niðurstaðan svo óljós að ekki sé hægt að skýra frá með beinum hætti einhverri niðurstöðu af fundinum annarri en þeirri að menn ætli að tala saman aftur í janúar?