131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Viðræður utanríksráðherra Íslands og Bandaríkjanna.

[15:21]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svörin þó þau séu að mörgu leyti í svipuðum dúr og við höfum séð í fjölmiðlum.

Maður veltir óneitanlega fyrir sér hvort sérstaklega hafi verið rætt um þennan einhliða niðurskurð á Keflavíkurflugvelli og hvers sé að vænta í fjárlögum Bandaríkjanna fyrir árið 2005. Mun verða haldið áfram að skera niður fjárframlög til herstöðvarinnar á næsta ári og ef svo er, hve mikill mun niðurskurðurinn verða og hvernig getum við vænst að hann komi út á varnarstöðinni á Miðnesheiði.

Stutt fyrirspurn eins og þessi getur aldrei tæmt umræðu um svona mál og ég mun því halda til streitu ósk minni um utandagskrárumræðu um málið þar sem hægt er að fara betur yfir það. Að mínu viti verðskuldar málið miklu meiri umræðu en bara utandagskrárumræðu þar sem fara verður yfir málið í hálfgerðum andarteppustíl.