131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Svæðalokun á grunnslóð.

[15:26]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir svörin og vona svo sannarlega að hreyfing fari að komast á málið. Jafnframt vil ég í framhaldinu nota tækifærið og hvetja hæstv. sjávarútvegsráðherra að fara í þá vinnu að athuga hvort við séum ekki á einhvern hátt að gera hlutina með röngum hætti því eins og við vitum öll hefur því miður nánast stanslaus friðun á þorski sl. 20 ár ekki skilað neinu. Við erum enn þá að veiða við sögulegt lágmark.

Sjómenn sem ég hef rætt við hafa bent á að loðna hafi til að mynda ekki komið inn á Breiðafjörð í mörg herrans ár og það geti að einhverju leyti skýrt það að fiskur á þessari slóð vex mjög hægt. Hann er þar af leiðandi flokkaður sem smáfiskur þó hann sé það í raun og veru ekki.

Ég vil því enn og aftur nota tækifærið til að hvetja sjávarútvegsráðherra til dáða í þessum málum og athuga hvort ekki sé rétt að hugsa hlutina með svolítið öðruvísi hætti en við höfum gert sl. 20 ár. Það hefur ekki skilað okkur langt fram á veginn.