131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Svæðalokun á grunnslóð.

[15:27]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það voru út af fyrir sig athyglisverð sjónarmið og vangaveltur sem fram komu hjá hv. þm. varðandi stöðuna um göngu loðnunnar og hugsanleg áhrif þess á fisk í Breiðafirði. Hins vegar er ekki rétt hjá honum að enginn árangur hafi náðst í fiskveiðistjórnun okkar hvað varðar þorsk síðustu 20 árin. Það hefur gengið bæði upp og niður af ýmsum ástæðum sem margoft hefur verið farið yfir í þingsalnum. Reyndar eru ekki margir þorskstofnar við Atlantshafið sem geta státað af því að vera í svipaðri stærð og þeir voru fyrir 20 árum, langsamlega flestir þeirra eru í miklu lakari stöðu en þeir voru í fyrir 20 árum.

Þetta kemur fram í þeirri umræðu sem fram fer á alþjóðavettvangi, að árangur okkar er metinn í þessu ljósi og talinn vera einn af þeim bestu sem náðst hefur á þessu sviði og þótt víðar væri leitað.