131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Svæðalokun á grunnslóð.

[15:28]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég er algerlega ósammála þessu. Ég er með skýrslu Hafrannsóknastofnunar fyrir framan mig þar sem kemur m.a fram að hrygningarstofn þorsksins við Ísland var um milljón tonn árið 1955. Núna er hann kominn niður í 177 þús. tonn og hefur sjaldan eða aldrei verið jafnlítill.

Við getum tekið aflatölur af handahófi. Árið 1980 veiddum við 465 þús. tonn en í ár veiðum við aðeins 202 þús. tonn. Þetta eru hinar ísköldu staðreyndir sem blasa við.

Svo er ég heldur ekki sammála því að þorskstofnar annars staðar í Norður-Atlantshafi séu í mjög slæmu ásigkomulagi. Það er þokkalegt ástand við Færeyjar og mjög gott ástand í Barentshafi, í raun og veru miklu betra en menn hefðu búist við fyrir nokkrum árum. Þetta er því alls ekki rétt.

Það verður því miður bara að segjast eins og er, og mjög margir viðurkenna það, að fyrirhuguð uppbygging okkar á þorskstofni hefur ekki verið í neinu samræmi við væntingar. Það hlýtur þá í framhaldi af því, herra forseti, að vekja upp spurningar um það hvort við höfum ekki verið að gera eitthvað rangt í öll þessi ár.