131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Viðræður um skiptingu tekjustofna ríkis og sveitarfélaga.

[15:34]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Við höfum sjálfsagt gert rangt í því, stjórnarandstæðingar, að taka ekki hæstv. fjármálaráðherra upp og ríkisstjórnina, bæði fyrr og oftar í þessum málum. Það þarf að komast á hreint hvort fjármálaráðherra gengur fram eins og raun ber vitni í umboði meiri hluta á Alþingi. Er meiri hluti Alþingis þeirrar skoðunar að fjármálaráðherra standi eðlilega að málum í þessum viðræðum? Það kom fram í svari hæstv. fjármálaráðherra að hann er enn að reyna að þvælast fyrir því að yfirstandandi fjárhagsvandi sveitarfélaganna fáist tekinn fyrir í þessum viðræðum og reyna að halda sveitarfélögunum í því fari að ekkert megi ræða nema verkefnaflutning í framtíðinni og tekjur sem honum eiga að tengjast. Þetta skýrir þann hringlandahátt sem hefur verið á erindisbréfum þessara nefnda þar sem ýmist hefur átt að taka fyrir framtíðina eina og/eða í öðrum tilvikum að sveitarfélögin hafa verið að reyna að fá núverandi stöðu tekna fyrir.

Ég ræð ekki annað af viðbrögðum hæstv. fjármálaráðherra en að enn þá sé allt fast í botni, bremsurnar skrúfaðar fastar. Er sú sem sagt staðan?