131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[15:45]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Í þessum tölulið frumvarpsins er lögð til 100 millj. kr. aukin fjárveiting til Íslensku friðargæslunnar svokölluðu. Við höfum mikla fyrirvara á því hvernig þau mál eru að þróast í höndum hæstv. ríkisstjórnar og sérstaklega á því sem lýtur að vopnaburði íslenskra borgara á erlendri grund og stórauknum útgjöldum sem því brölti öllu saman tilheyra. Við erum eindregnir stuðningsmenn friðsamlegrar og borgaralegrar þróunaraðstoðar og hjálparstarfs en teljum að hér sé verið að grauta hlutum saman á þann hátt sem mjög orki tvímælis.

Þá er í þessum lið einnig falin 30 millj. kr. fjárveiting til hergagnaflutninga Íslendinga erlendis í samræmi við fyrirheit ríkisstjórnarinnar þar um á NATO-fundinum fræga í Prag. Við erum algerlega andvíg því að íslenskir fjármunir séu notaðir til slíkra hluta og teljum að þessum fjármunum öllum saman, og þótt meiri væru, væri betur varið til brýnna verkefna á sviði friðsamlegrar og borgaralegrar fyrirbyggjandi þróunaraðstoðar og hjálparstarfs. Við erum andvíg þessum lið frumvarpsins og yrði hann felldur mundum við leggja til að sömu fjármunir færðust til þróunarsamvinnu.