131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:26]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg ótrúlegt að heyra það vantraust sem kom í rauninni fram í máli hv. þingmanns að hann ber til yfirstjórna ríkisháskólanna, því það var að þeirra ósk sem þessi hækkun á skráningargjöldum er lögð fram. Þeir fá þessa hækkun algjörlega óskipta í sinn rekstur. Mér finnst með ólíkindum að menn skuli vera að mótmæla þeim kostnaði sem þeir leggja fram, og hv. menntamálanefnd gefst að sjálfsögðu tækifæri til að fara yfir þá kostnaðarliði sem lagðir eru fram lið fyrir lið.

Ég ber fyllsta traust til háskólanna, yfirstjórnar, rektorannna og þeirra sem koma að stjórn háskólanna og undirstrika að þetta er skráningargjald og að hér er engan veginn um skólagjöld að ræða.