131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:31]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hlýt að vekja athygli á að í þingsköpum stendur að við 1. umr. frumvarpa skuli tala almennt um málið. Það þýðir að þingmenn eiga rétt á því að ráðherra sem flytur stjórnarfrumvarp skýri út hvað stendur á bak við málið. Þegar ég spyr hvort þetta skráningargjald sé, að mati ráðherrans, menntamálaráðherrans hæstvirts yfir íslenskum menntamálum, heldur skattur eða þjónustugjald, þá á ég heimtingu á, forseti, að því sé svarað. Það er virðingu þingsins ekki samboðið að ráðherrann komi hér upp og tali, í þær eina eða tvær mínútur sem hún má tala, um eitthvað allt, allt, allt annað en hún er spurð um.

Þess vegna ítreka ég spurningu mína: Er þetta þjónustugjald eða skattur?

Íslenska ríkið getur ekki sett svona gjöld á þegna sína og krafist þess að þeir greiði þau án þess að ljóst sé hvar þau flokkast. Það er auðvelt fyrir hæstvirtan menntamálaráðherra að athuga þetta, undir hvað fellur þetta í greinargerðum fjármálaráðherra til alþjóðastofnana; fellur þetta undir þjónustugjald eða fellur þetta undir skatt? Því mönnum er skylt að gera skil á því þegar þeir eru teknir upp í alþjóðasamstarfi.