131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[18:07]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þórarni E. Sveinssyni fyrir það hugrekki að koma í þennan ræðustól og reyna að taka upp varnir vegna þess máls sem hér um ræðir. Ég er satt að segja ekki mjög vanur því að reyna að lesa í hugarþel framsóknarmanna, þeir eru fáir í mínum heimabæ, en ég ætla að reyna hins vegar að fá einhvern botn í það sem spurt var um áðan: Hvenær hættir innritunargjald að vera innritunargjald og breytist í skólagjald?

Ég vil líka spyrja: Ef hér er um innritunargjald að ræða — af því að hv. þm. kemur frá Akureyri, getur hann upplýst mig um það hvaða hækkun hafi verið á kostnaði í Háskólanum á Akureyri við innritun nemenda sem kallar fram 40% hækkun milli ára? Það er ósköp skýr spurning og ég vænti þess að hann hafi hugrekki til að svara af einlægni og heiðarleika.