131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[18:11]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Þórarni E. Sveinssyni fyrir að standa í stólnum og halda uppi merki Framsóknarflokksins sem því miður hefur fallið niður í umræðum í dag. Hér er líka kominn annar framsóknarmaður í salinn, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, höfundur greinar sem hér var lesin áðan. Hann er velkominn í stólinn á eftir að skýra sitt mál og það hvernig málið samræmist þeirri samþykkt á þingflokksfundi Framsóknarflokksins sem við vorum upplýst um áðan.

Ég vil spyrja hv. þm. Þórarin Sveinsson hvort það hafi komið fram á þingflokksfundinum hvort um væri að ræða skatt eða þjónustugjöld vegna þess að það er grundvallaratriði í þessu máli. Mér heyrist á þingmanninum að hér hafi verið talið vera um skatt að ræða vegna þess að hann talaði um hógvær innritunargjöld. Þjónustugjöld geta hvorki verið hógvær né ókurteis, heldur eru þau greiðsla fyrir ákveðna þjónustu. Má skilja orð þingmannsins svo að hér sé um þjónustugjöld eða skatt að ræða?