131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[18:15]

Þórarinn E. Sveinsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ef hér er um ógnun að ræða, sem ég ætla aðeins að láta liggja á milli hluta, er náttúrlega sú ógnun löngu komin fram. Hér er leiðrétting á gömlum lögum, eins og margbúið er að segja.

Þetta er samt ágætt. Ef maður gleymir stórum orðum er þetta ágæt umræða. Það er nauðsynlegt að þingið ræði um það hvernig við stöndum að skólakerfinu í framtíðinni. Skólakerfið hefur verið, eins og ég reyndi að segja í framsögunni, á þannig siglingu að þetta snýst ekki eingöngu um innritunargjaldið. Ég tek undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og fleirum sem hér töluðu, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði svona líka, þetta er angi af miklu stærra máli og og það er um að gera og nauðsynlegt að taka þá umræðu. Hér eru að spretta upp nýir skólar úti um allt, sumir með mjög há innritunargjöld og sumir með mjög há skólagjöld og þetta er auðvitað hlutur sem samfélagið þarf að fara yfir í heild sinni.