131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[18:19]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Hér er til umræðu mjög stórt prinsippmál að mínu mati. Hér er verið að ræða um 40% hækkun á skólagjöldum í ríkisháskólunum og ég skil satt að segja ekki þá umræðu sem hefur átt sér stað í dag um það hvort þetta séu skólagjöld eða þjónustugjöld. Það liggur fyrir lagaleg skýring á því hvað þjónustugjald er og þetta er augljóslega ekki þjónustugjald. Sú umræða þarf ekki að verða meiri.

Það er líka ágætt að halda því til haga að hér er um að ræða 40% hækkun á skólagjöldum ríkisháskólanna en síðast var þetta gjald hækkað árið 2001 og þá einnig um 40%. Við sjáum að gjaldtakan á nemendur í ríkisháskólunum hefur verið að aukast.

Það er einnig fróðlegt að skoða, sem tengist umræðu um það hvort það séu skólagjöld eða ekki, hvað tekið er inn í þetta svokallaða skrásetningargjald. Þeir telja það vera hluta af skráningu að hafa aðgang að bókasafni og tölvum. Þeir telja að alþjóðaskrifstofan, námsráðgjöf og prófgæsla séu hluti af skráningu og jafnvel í samantekt Háskóla Íslands kemur fram að íþróttahúsið hafi átt að vera hluti af skráningarferlinu. Flestir sem láta sig þessi menntamál varða eru þó sammála um að menntakerfið og þá sérstaklega háskólastigið hafi búið við mikið fjársvelti undanfarin ár. Það er aðalatriði þessarar umræðu.

Hæstv. menntamálaráðherra lét hins vegar ein af sínum fyrstu ummælum í starfi vera þau að Háskóli Íslands væri ekkert blankur. Hún orðaði það svona, hæstv. menntamálaráðherra, í fjölmiðlum: Háskóli Íslands er ekkert blankur. Þá væri kannski fróðlegt að spyrja: Af hverju er verið að auka gjaldtökuna af nemendum ef háskólann vantar ekki pening?

Einnig er í greinargerð þessa frumvarps hæstv. menntamálaráðherra komið inn á að þetta frumvarp sé að ósk ríkisháskólanna. Það væri mjög fróðlegt að ganga eftir svörum hjá hæstv. menntamálaráðherra um það hvaða stofnanir ríkisháskólans óskuðu eftir þessari hækkun. Gerði háskólafundur það eða háskólaráð eða stúdentaráð? Það kemur ekki fram í greinargerðinni.

Ég held að það væri ráð að hæstv. menntamálaráðherra mundi heimsækja forsvarsmenn allra deilda háskólans eins og þingmenn Samfylkingarinnar gerðu í upphafi þessa árs. Þá mundi hún fljótt heyra að blankheit skólans eru svo sannarlega fyrir hendi. Þetta veit starfsfólk háskólans og þetta vita stúdentar. Hæstv. menntamálaráðherra hefur þó fjallað, m.a. í grein sinni frá 7. febrúar sl. í Morgunblaðinu, um þá aukningu sem átt hefur sér stað undanfarin ár á fjármagni til háskólastigsins. Hún tekur hins vegar ekki fram að sú aukning svarar aðeins til þess fjölda sem hefur aukist og að samhliða nemendaaukningu hafa laun starfsfólks háskólastigsins hækkað talsvert. Því er þetta aukna fjármagn sem hæstv. menntamálaráðherra vísaði til eingöngu vegna nemendafjölgunar og launahækkana og nær þó ekki að halda í við þessa tvo þætti. Ef við lítum eingöngu á Háskóla Íslands kemur meira að segja fram í grein hæstv. menntamálaráðherra frá febrúar sl. að aukningin á fjármagni til Háskóla Íslands frá árinu 2000 er minni en sem nemur nemendafjölgun á sama tíma. Gagnvart Háskóla Íslands hafa stjórnvöld þannig farið aftur á bak. Hér er ekki verið að ræða um einhverja meðvitaða aukningu í menntamál eins og má skilja af málflutningi hæstv. menntamálaráðherra.

Hæstv. menntamálaráðherra lendir einnig í vandræðum þegar kemur að samanburði við aðrar þjóðir. Í nýjustu skýrslu OECD kemur fram að Íslendingar eru einungis hálfdrættingar á við önnur Norðurlönd þegar kemur að útgjöldum til háskólastigsins. Og þótt við mundum auka útgjöld til háskólastigsins um 1 prósentustig af landsframleiðslu, þ.e. um 8 milljarða, næðum við ekki efstu þjóðum. Þetta sýnir hversu langt að baki við stöndum í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að háskólastiginu.

Það er fróðlegt að skoða fleiri staðreyndir um stöðu Íslands í menntamálum. Ef við lítum til opinberra útgjalda til menntamála að teknu tilliti til aldursdreifingar þjóðarinnar er Ísland einungis í 14. sæti af 28 þjóðum. Hér erum við langt að baki öðrum Norðurlandaþjóðum. Samkvæmt nýjustu skýrslu OECD er Ísland einungis í 10. sæti séu útgjöld á nemanda frá grunnskóla til háskóla skoðuð. Samkvæmt sömu skýrslu ver Ísland aðeins 0,9% af landsframleiðslu sinni til háskólastigsins sem er allt að helmingi lægra hlutfall en hinar Norðurlandaþjóðirnar gera.

Það er einnig fróðlegt að stúdera þessa nýjustu skýrslu frá OECD sem hefur samanburðarhæfar tölur. Samkvæmt henni ljúka mun færri einstaklingar háskólanámi á Íslandi en í nágrannalöndunum. Það er ákveðin þjóðsaga hér á landi að við Íslendingar séum gríðarlega menntuð þjóð í alþjóðlegum samanburði. Svo er ekki eins og sjá má ef við lítum til OECD-þjóðanna. Um það bil 29% þjóðarinnar á aldursbilinu 25–34 ára hafa lokið háskólanámi en það er talsvert lægra hlutfall en hjá flestum öðrum Vestur-Evrópuþjóðum. Í Noregi og Svíþjóð er þetta hlutfall 39%, Finnland er með 40% og t.d. Írland og Spánn 37%. Við erum með 29% og hér vísa ég til ungs árgangs, 25–34 ára. Ég er ekki að taka eldri kynslóðirnir inn í breytuna sem eðli málsins samkvæmt hafa minni menntun.

Við getum líka litið á brottfallið úr framhaldsskólum en það er um 30% á Íslandi en meðaltal OECD-þjóðanna er 19%. Einungis fjögur lönd eru verr sett hvað þetta varðar en Ísland. Ef við lítum á það hlutfall íslensku þjóðarinnar sem hefur ekki lokið framhaldsskólaprófi er það mun hærra. Samkvæmt nýjustu skýrslu OECD hefur 61% af Íslendingum á aldrinum 25–34 ára lokið framhaldsskólaprófi en þetta hlutfall er annars staðar á Norðurlöndunum 86–94%. Við erum með 61%. Nánast annar hver Íslendingur hefur einungis lokið grunnskólaprófi og við erum í 25. sæti af 30 OECD-þjóðum hvað þetta varðar.

Svo má taka aðra mælikvarða. Samkvæmt frekar nýlegri könnun af læsi náðu Íslendingar rétt meðaltali og almennt séð hafa Íslendingar staðið sig illa í alþjóðlegu TIMSS-könnununum. Svo má benda á enn einn faktor um stöðu menntamála hér á landi, 30–40% íslenskra nemenda ná ekki lágmarkseinkunn í samræmdum prófum í 10. bekk grunnskólans. Það muna allir hér inni í hvaða vesen hæstv. menntamálaráðherra setti framhaldsskólanemendur fyrr á árinu þegar fólk gat ekki fengið vist í þeim skólum sem það sótti eftir þrátt fyrir lögbundna skyldu ríkisins til að veita slíka þjónustu. Núna er síðasti dropinn sá að hækka skólagjöld í ríkisháskólum um 40%. Þá eru skólagjöld í ríkisháskólum orðin fjórðungur af skólagjöldum Háskólans í Reykjavík ef ég man rétt. Þetta er að fara hægt og rólega upp, reyndar ekki hægt og rólega heldur í stökkum, 40% stökkum, 40% núna, 40% árið 2001. Við sjáum alveg hvert stefnir. Það er verið að auka fórnarkostnaðinn á nemendur sem er þó nægur fyrir. Þegar samanburðurinn bætist ofan á þessar tölur, að við stöndum að baki öðrum þjóðum varðandi fjölda þeirra sem eru með háskólapróf, er þetta ekki rétt stefna. Við eigum einmitt að lækka þröskuldinn fyrir fólk til að komast í háskóla og framhaldsskóla en ekki hækka hann.

Svo er framganga Framsóknarflokksins í málinu alveg sérkapítuli í umræðunni, ég held að menn hafi komið inn á það. Hann er flokkur sem hefur ítrekað ályktað að ekki eigi að hækka skólagjöld í grunnnámi ríkisháskólanna. Svo stendur hann fyrir þessu frumvarpi. Það er alveg með ólíkindum, eins og sá sem stendur hér hefur bent á, að Framsóknarflokkurinn sé í þessari stöðu á meðan hann býr við þann unað að hafa hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur í þingflokki sínum. Um það bil ári eða kannski tveimur árum áður en hún var kosin á þing var hún framkvæmdastjóri stúdentaráðs og hélt sömu ræðu og ég er að halda hér. Um leið og hv. þm. kom inn á þing þagnaði sú rödd Framsóknarflokksins.

Ég vona að stúdentar fylgist með þessari umræðu og sjái hverjir fara hvernig með það vald sem þeir hafa þegar þeir loksins komast að því. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir er varaformaður menntamálanefndar. Hún er oddamaður í þeirri nefnd þannig að hún getur að mínu mati hæglega haft jákvæð áhrif á störf og stefnu ríkisstjórnar í menntamálum. En við sjáum að ekki eingöngu hv. þm. Dagný Jónsdóttir heldur ríkisstjórnarflokkarnir báðir kusu gegn fjárveitingatillögu Samfylkingarinnar sem lögð var fram í fjárlagaumræðunni í fyrra þrátt fyrir augljósan fjárskort háskólans. Síðasti LÍN-samningur var afskaplega slæmur. Eftir því var tekið og núna á að hækka skólagjöld um 40% eftir 40% hækkun fyrir fjórum árum.

Ég held að þessi umræða sé angi af stærra máli, forgangsröð ríkisstjórnarinnar í menntamálum. Við sjáum að menntamál eru ekki forgangsmál þessarar ríkisstjórnar. Það er alveg augljóst. Ég hef bent á að í samanburði fær landbúnaðarkerfið bæði beint og óbeint meira fjármagn frá hinu opinbera en allir framhaldsskólar landsins og Háskóli Íslands samanlagt. Við sjáum alveg forgangsröðina, sauðfé er metið hærra en stúdentar í augum þessarar ríkisstjórnar.

Við sjáum líka að þessi ríkisstjórn stendur fyrir því að kaupa og byggja sendiherrabústað í Berlín sem kostar jafnmikið og að reka meðalframhaldsskóla, t.d. Flensborgarskólann. Sjáið upphæðirnar. Hér er verið að tala um sendiherrabústaðinn. Við erum ekki að tala um sendiráðið, það er margfalt dýrara. Þetta eigum við allt að skoða í samhengi og átta okkur á því fyrir hvað þessi ríkisstjórn stendur í menntamálum. Það sem er dapurlegt er að þetta mun koma aftan að okkur, þetta sinnuleysi og þetta fjársvelti í menntamálum. Eitt það skynsamlegasta sem hver ríkisstjórn getur gert á hverjum tíma er að auka fjármagn í menntakerfið því fjármuni í menntakerfið ber að líta á sem fjárfestingu en ekki útgjöld. Okkar alþjóðlegi samanburður sýnir svo sannarlega að það er brýn þörf að bretta upp ermarnar og setja menntamálin í forgang.