131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[18:29]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka umræðuna þó hún hafi verið misjöfn og innihald hennar verið misgott. Varðandi það sem fram kom hjá háttvirtum síðasta ræðumanni, hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni, vil ég sérstaklega mótmæla því að menntamál hafi ekki verið sett í forgang á síðustu árum. Þvert á móti hafa einmitt menntamálin verið sett í forgang hjá ríkisstjórninni, annars vegar með markvissri uppbyggingu í efnahagslífinu sem gerir okkur kleift að uppfylla m.a. kosningaloforð Samfylkingarinnar frá því fyrir síðustu kosningar.

Undir hvaða lagi þrammaði Samfylkingin fyrir síðustu kosningar? Jú, hún ætlaði að setja 3 milljarða kr. á ári í menntakerfið. En bara fyrirgefið, hæstv. forseti, ríkisstjórnin er löngu byrjuð á því verki, að setja um 3 milljarða kr. á ári til viðbótar í allt menntakerfið. Hið opinbera á Íslandi hefur staðið sig feikilega vel í skólakerfinu. Þar hefur verið mikil sókn á öllum sviðum. Það eru blindir menn og heyrnarlausir sem átta sig ekki á því hver sóknin í menntun hefur verið hér. Það hefur aldrei verið meiri fjölgun á háskólanemum en hér hefur verið. Þróunin er hvað hröðust hér af öllum OECD-ríkjunum, langhröðust, og líka aukningin til menntamála.

Ég vil líka benda háttvirtum þingmönnum, sem vitna oft til landa Evrópu og líka OECD, sem er hið besta mál, en þeir minnast ekki einu orði á það hvernig önnur OECD-ríki hafa mætt aukningu nemenda í menntakerfi sínu. Hvernig hafa ýmsar þjóðir OECD-ríkjanna mætt hinni miklu fjölgun nemenda á háskólastigi? Hvernig skyldu þær hafa mætti því? Jú, með því að skerða nemendaframlög. En við höfum lagt okkur í líma við að reyna að láta töluna sem um var samið á sínum tíma fylgja þeim nemendaígildum sem um er að ræða. Það er gríðarleg þensla, jákvæð þensla, í menntakerfinu á Íslandi.

Hér hafa menn talað um brottfall í framhaldsskólum, tyggjandi og kvakandi gamlar tölur, blanda inn í framhaldsskólann m.a. öldunganámi og fjarnámi en minnast ekki einu orði á það sem skiptir mestu máli, þ.e. að brottfall í framhaldsskólum, dagskólunum, hefur snarminnkað. Út af hverju skyldi það nú vera? Út af hinu ágæta reiknilíkani sem alltaf er í endurskoðun, sífelldri endurskoðun. Það hefur leitt til þess að brottfall í framhaldsskólum á Íslandi hefur farið snarminnkandi þegar litið er til dagskólanna og er eitt helsta tækið til að koma í veg fyrir aukið brottfall, þetta ágæta reiknilíkan varðandi framhaldsskólana.

Nú er þannig komið fyrir íslensku samfélagi að við erum með ein mestu framlög til menntamála miðað við þjóðarframleiðslu, ef við miðum við Evrópuríkin. Svo eru menn ósáttir við það og tala um framlögin miðað við síðustu skýrslu OECD en nefna ekki einu orði hvert viðmiðunarárið er, það er árið 2001. Það er rétt bara að menn hafi það á hreinu að þar miða menn við árið 2001. Síðan þá hafa framlög til menntamála, til háskólamála, til rannsóknarmála hækkað um 45%. Ætli það muni ekki eitthvað um þessi ár?

Síðan vil ég líka sérstaklega geta þess, af því að talað hefur verið um að 0,9% af landsframleiðslu séu sett inn í háskólamálin, að þar er Lánasjóður íslenskra námsmanna ekki tekinn með af því að hér er hann túlkaður sem félagslegur jöfnunarsjóður, sem hann er. Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur aldrei staðið betur sem hefur m.a. gert það að verkum að í síðustu viku ræddum við afar gott frumvarp sem nú er til meðferðar í háttvirtri menntamálanefnd um lækkun endurgreiðsluhlutfalls námslána úr 4,75% niður í 3,75%.

Svona hlutir gerast ekki af sjálfu sér. Það er ósköp gott að koma hingað upp og segja: Það þarf aðhald í ríkisrekstri, við megum ekki auka útgjöldin of mikið á einum stað en fara síðan í næstu lotu að tala um að bæta þurfi í. Það þarf að vera samkvæmni og samræmi í málflutningnum.

Ég vil sérstaklega geta þess, svo ég haldi mig við háskólastigið, að ég er sannfærð um að þegar litið verður til ársins 2004 þá komi í ljós að við höfum aukið framlög hlutfallslega hraðar og meira en önnur OECD-ríki hafa gert á þessu árabili. Ég er sannfærð um það. Við sjáum á þeim kennslu- og rannsóknarframlögum sem við erum að ræða um hverju sinni í meðferð fjárlaga á hinu háa Alþingi.

Hvers konar umhverfi búum við við ef menn eru að tala um að það sé ekki hægt að ræða um innritunargjöld, um skráningargjöld? Að sjálfsögðu getum við gert það. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson segir að fyrirkomulagið sé ekki svona annars staðar. Það er alveg rétt að það er ekki svona alls staðar annars staðar. En það er heldur ekki með sama hætti samkomulagið milli ríkis og ríkisháskólanna eins og er hér, sér í lagi þegar litið er til Háskóla Íslands. Þar er sérstakur kennslusamningur í gildi og sérstakur rannsóknarsamningur.

Hvað erum við að gera með skráningargjöldunum? Við erum að viðurkenna það sem hið háa Alþingi hefur þegar viðurkennt. Hér hefur Alþingi sérstaklega gefið heimild í lögum til að taka ákveðið gjald fyrir innritun. Til þess er heimild í lögum. Þess vegna finnst mér brýnt að við nýtum þá heimild í lögum, horfumst í augu við hana og séum ekki með þennan feluleik sem stjórnarandstaðan er með. Ég hefði haldið að menn kæmu upp og segðu: Já, gott hjá þér, hæstv. ráðherra, að vera búin að draga fram kostnaðinn á bak við töluna sem hefur verið hér í lögum, 32.500 kr. og þar áður 24.000. Ég hefði fremur búist við að menn kæmu og segðu: Það er nú aldeilis gott að fá þessa tölu á hreint.

Nei, menn vilja ekki gagnsæi í stjórnsýslunni. Svo glotta menn. Menn vilja bara ekki gagnsæi. Maður reynir að draga þetta fram í góðri samvinnu við háskólana sem hafa farið fram á þetta út af því að þeir vilja ekki taka fjármagn úr kennslu- og rannsóknarsamningnum til að standa undir kostnaði sem þjónustan hefur í för með sér gagnvart stúdentum. Þannig er það.

Ég verð að undirstrika að þessi bragur er allur annar og betri en sá háttur sem hafður var á þegar lögin voru samþykkt árið 1990. Í lögum nr. 131/1990 var sérstaklega tekið fram í 21. gr., nú skulu menn taka vel eftir:

„Skrásetningargjöld skulu háð samþykki háskólaráðs og menntamálaráðherra.“

Er þetta gagnsæi? Finnst mönnum þetta skynsöm og heppileg fyrirmyndarstjórnsýsla, að hafa þetta svona, að skrásetningargjöld skuli háð samþykki háskólaráðs og menntamálaráðherra? Gott og vel. Við verðum að reikna með því að sú lagagrein hafi verið barn síns tíma, eins og menn hafa áður rætt um, og verða þá bara að viðurkenna það.

Ég vil frekar hafa það svart á hvítu í löggjöfinni að þetta mál og þessi fjárhæð hafi farið fyrir Alþingi, fyrir menntamálanefnd til meðferðar, tiltekin fjárhæð, rökstudd með tölum og rökum, heldur en að láta það ráðast af geðþóttaákvörðun eins og var á árum áður. Ég bara biðst forláts, hæstv. forseti, en mér finnst betra lag á framkvæmdinni núna en á vinnulaginu á árum áður. Í raun má ætla að allt að því geðþóttaákvörðun menntamálaráðherra hafi ráðið úrslitum um hversu hátt skrásetningar- og innritunargjaldið ætti að vera hverju sinni.

Hér hafa menn m.a. rætt um að hv. þm. Dagný Jónsdóttir skuli ekki hafa verið viðstödd umræðuna. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson ræddi það sérstaklega og fór mikinn í púltinu. Mér fannst það ekki stórmannlegt þegar búið var að upplýsa það margoft að hv. þingmaður er stödd erlendis. Hv. þingmaður er þannig einstaklingur, eins og ég þekki hana, að hún kemur ávallt til með að standa fyrir skoðunum sínum og rökstyðja þær afar vel.

Mér fannst heldur ekki stórmannlegt af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, sem ekki er staddur í salnum, að fara sömu leið, í sama herleiðangur og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, að ráðast að hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur, (Gripið fram í.) vitandi vits að hún er fjarstödd þessa umræðu en mun að sjálfsögðu taka málið til meðferðar og fara gaumgæfilega yfir það í meðferð menntamálanefndar á málinu. (Gripið fram í.) En það getur svo sem vel verið að menn séu eitthvað pirraðir yfir því að hafa farið halloka í umræðuþáttum í gær, eins og Silfri Egils og fleiri ágætum þáttum.

Menn hafa verið að tala um að háskólarnir eigi ekki peninga og eigi ekki til fjármagn, þess vegna sé þessi leið farin. (Gripið fram í.) Það er síður en svo þannig. Ég vil sérstaklega benda þingheimi á það, sem vonandi fer að hætta að gjamma fram í, að Háskóli Íslands hefur frá árinu 2000 fengið aukið framlag upp á tæpan milljarð. Háskólinn á Akureyri hefur fengið 230 millj. kr., svo dæmi sé tekið. Kennaraháskóli Íslands hefur fengið um 400 millj. kr. Þar er um 62% aukningu að ræða, svo dæmi sé tekið frá árinu 2000. Framlög til Listaháskóla Íslands hafa á árunum 2000–2004 aukist um 140% eða um 280 millj. kr. Segja menn að það sé fjársvelti í háskólakerfinu?

Auðvitað eigum við sífellt að berjast fyrir því, og við erum að berjast fyrir því sífellt, að auka enn framlög til menntakerfisins. Það er alltaf þannig. En fjármagnið til háskólastigsins hefur aukist gríðarlega. Við höfum eftir bestu getu reynt að mæta kröfum háskólanna og þá sérstaklega ríkisháskólanna til að halda í við þá miklu aukningu og mikla menntasókn landsmanna.

Mér fannst líka hvimleitt að verða vitni að því enn og aftur, í umræðum um háskólamál, að einn úr liði stjórnarandstæðinga skuli enn og aftur á óbeinan hátt höggva í sjálfstæðu háskólastofnanirnar. Mér finnst þetta hvimleiður siður hjá stjórnarandstöðunni, að reyna að gera málflutning sinn meiri með því að höggva í ágætar sjálfstæðar stofnanir í háskólasamfélaginu, (Gripið fram í.) t.d. Viðskiptaháskólann á Bifröst, Háskólann í Reykjavík og fleiri stofnanir. Við vitum það, það hefur margoft komið fram, að það var pólitísk ákvörðun að koma í raun upp vísi að ávísunarkerfi í háskólasamfélaginu hér á landi, með því að láta fjármagn flytjast með nemanda óháð því í hvaða háskóla hann færi.

Þetta var pólitísk ákvörðun sem þurfti að berjast fyrir. Svo koma menn í dag og segja: Ja, valfrelsi er sjálfsagt. Tækifæri til háskólanáms hafa aldrei verið meiri og betri og skemmtilegri. Hlutirnir gerðust bara þannig. Auðvitað gerast hlutirnir ekki bara þannig. Þetta var pólitísk, meðvituð ákvörðun um að auka valfrelsi, auka samkeppni og fjölga tækifærum unga fólksins til háskólamenntunar. Fyrir vikið sjáum við háskólastigið allt blómstra.

Að mínu mati hefur Háskóli Íslands og ríkisháskólarnir sérstaklega aldrei staðið betur. Hið faglega starf, hið akademíska starf blómstrar. Það verður að hlúa áfram að þeirri góðu starfsemi sem þar hefur farið fram. Það er m.a. gert með því að efla samkeppnissjóðina innan lands því að fram til 2007, svo ég minni háttvirta þingmenn á það, mun ríkisstjórnin auka framlög sín til rannsókna- og vísindamála um milljarð. Það er allt gert í ljósi þess að loksins er komin á samkeppni í rannsóknum og í vísindum. En af orðum háttvirtra þingmanna í stjórnarandstöðunni að marka hefði sú þróun ekki orðið ef þeir hefðu fengið að ráða ferðinni. Svo einfalt er það. Við hefðum ekki rætt um að sameina háskóla á Íslandi í dag, í nóvember árið 2004, ef háskóla- og menntastefna stjórnarandstöðunnar hefði fengið að ráða. Menn verða að hafa það alveg á hreinu, hæstv. forseti.

Í byrjun ferils mín sem ráðherra ákvað ég að farið skyldi í stjórnsýslu- og fjárhagsúttekt á Háskóla Íslands og einnig að láta gera rannsókna- og vísindaúttekt, allt með það að markmiði að efla og styrkja stefnumótun innan háskólans. Að þessu hefur verið unnið í samráði við yfirvöld Háskóla Íslands. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram ágæt umræða. Menn hafa dregið fram kostnaðinn vegna þessara frumvarpa. Ég vona að þau fái vandaða meðferð innan menntamálanefndar.