131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[18:46]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að það er sárt fyrir hv. þingmenn Samfylkingarinnar að upplifa þessa miklu menntasókn og standa frammi fyrir henni sem orðnum hlut og þurfa að upplifa enn frekari menntasókn til framtíðar ef við fáum áfram að ráða för. Ég vil sérstaklega benda hv. þingmanni, sem talar um erlendar úttektir, á plagg þar sem fjallað er sérstaklega um hlutfall Íslendinga á aldrinum 30–34 ára með háskólapróf á árinu 2000 í samanburði við Norðurlöndin og meðaltal Evrópusambandslanda. Þar er Ísland með 32,6% útskrifaðra háskólastúdenta, Finnland með 27,4%, Noregur með 37,7%, Svíþjóð með 31,4% og meðaltal Evrópusambandslandanna er 24,6% — og er hv. þingmaður að segja að Íslendingar séu ekki menntuð þjóð? Hvernig er hægt að fullyrða slíkt, virðulegi forseti?