131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[18:52]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gat ekki betur heyrt á svari hæstv. ráðherra en að þessi ósk hefði í rauninni aldrei komið formlega fram. Hæstv. ráðherra vitnaði í fund með — heyrðist mér hún segja — yfirvöldum Háskóla Íslands. Það stendur í öllum þremur frumvörpunum að þetta sé „í samræmi við óskir ríkisháskólanna“. Hvar kom þessi ósk fram hjá skólunum hverjum og einum fyrir sig? Svarið virðist vera hvergi. Þessa sér hvergi stað, til að mynda í bókunum háskólaráðs eða háskólafundar svo að tekið sé dæmi af Háskóla Íslands.

Samkvæmt svari ráðherra áðan hefur þetta hvergi komið fram nema þá í einhverju kaffispjalli hennar og forráðamanna Háskóla Íslands sem varla gildir þá fyrir alla ríkisháskólana þrjá. Og ef svo er, lítur hún á það sem formlega ósk um hækkun skráningargjalda, að þetta hafi komið fram í spjalli hennar og yfirmanna Háskóla Íslands um stöðu mála? Hvar er hin formlega ósk frá skólunum öllum þremur?