131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[18:59]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég bið forláts ef ég hef misskilið hv. þingmann en það er bara ekki hægt að túlka orð stjórnarandstöðunnar með öðrum hætti miðað við það hvernig hún talar sí og æ um sjálfseignarstofnanirnar, sjálfstæðu skólana og einkaskólana. Það er ekki hægt að túlka orð stjórnarandstæðinga öðruvísi.

Mikilvægt hlutverk Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Kennaraháskólans verður seint undirstrikað og þá sérstaklega með tilliti til þess þáttar sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom inn á áðan, að Háskóli Íslands til að mynda stendur fyrir afskaplega breiðu námsframboði. Hann er líka ríkisháskóli, grundvallarstofnun í háskólasamfélagi okkar, hefur staðið sig með sóma og hann hefur ákveðnar skyldur sem ég held að við getum alveg viðurkennt að séu umfram aðra. Við viðurkennum það líka með því að framlögin til Háskóla Íslands eru hærri hvort sem við tökum kennslu- eða rannsóknarframlög en framlög til einkaháskólanna með skólagjöldunum til þeirra samtals. Það er verið að reyna að mæta þeim miklu kröfum sem gerðar eru til Háskóla Íslands og við erum sífellt að ræða um það í okkar samskiptum, ráðuneytisins og háskólayfirvaldanna.