131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[19:01]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra fer nú fögrum orðum um þjóðarskólann, Háskóla Íslands, og það ber að þakka það. Hún sagði í ræðu sinni áðan að ríkisháskólarnir séu ekki fjárvana, síður en svo, sagði hæstv. ráðherra.

Hverju vill þá hæstv. ráðherra svara forsvarsmönnum háskólanna sem komið hafa ár eftir ár fyrir alþingismenn ýmist í fjárlaganefnd eða menntamálanefnd til að biðja um leiðréttingar, leiðréttingar á launastiku, leiðréttingar vegna nemendafjölda. Hverju svarar hæstv. ráðherra deildarforsetum félagsvísindadeildar eða raunvísindadeildar sem sögðu þingmönnum fyrir síðustu kosningar að það lægi nærri að þessum deildum yrði lokað? Vegna hvers? Vegna fjárskorts.

Hvernig getur hæstv. ráðherra krafið okkur um að vera samkvæm sjálfum okkur í málflutningi og vera svo svona ósamkvæm sjálfri sér í sínum eigin málflutningi?

Í lokin vil ég segja, hæstv. forseti, að gefnu tilefni vegna þeirra reikningskúnsta í frumvörpunum sem við höldum á hér: Þær eru ekki gegnsæ stjórnsýsla. Þær eru húmbúkk.