131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[13:55]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Skattleysismörkin svokölluðu sem eru nú reyndar fjölmörg en miðast almennt við einhleypan einstakling hækka samkvæmt þessu frumvarpi, eins og ég gat um, úr 71 þús. kr. í 86 þúsund á árinu 2007. (GAK: 2007.) Það er vegna þess að skattleysismörkin eru samspil tveggja þátta, ekki bara persónuafsláttarins heldur líka skatthlutfallsins (Gripið fram í.) og með því að gera þetta hvort tveggja náum við þar verulegum árangri og jafnvel meiri en ýmsir töluðu um í síðustu kosningabaráttu.

Þingmaðurinn gat þess að ekki væri minnst á svokallaðan hátekjuskatt eða hinn sérstaka tekjuskatt í þessu frumvarpi. Fyrir því er einföld ástæða. Sá skattur er ekki hluti af þessu frumvarpi vegna þess að það er búið að lögfesta þá breytingu.

En þess má geta að afnám hans er líka liður í því að draga úr jaðaráhrifunum í skattkerfinu, draga úr þeim skatti sem fólk þarf að borga af sínum viðbótartekjum. Ég held að það sé (Gripið fram í: Aumingja ...) heppilegt að standa þannig að verki og við erum sem betur fer að ná heilmiklum árangri hvað það varðar núna þessi missirin. (Gripið fram í: Hvar liggur samúðin?)