131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:00]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var ákaflega frumleg framsöguræða hjá hæstv. fjármálaráðherra. Hann mælti nánast ekkert fyrir frumvarpinu en notaði obbann af ræðutíma sínum í að ráðast að stjórnarandstöðunni vegna þess sem hún væri líkleg til að segja hér á eftir og ónotast út í það sem sagt hefði verið um málið í fjölmiðlum undanfarna daga. Það var hæstv. ríkisstjórn sem reið á vaðið þar og kynnti þetta á blaðamannafundi og matreiddi þar fram gögn, ákaflega áróðurskennd gögn sem reyndar fylgja ekki frumvarpinu en ég er með í höndunum frá þeim gögnum sem var dreift á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar, þar sem ávinningurinn er allur reiknaður út hlutfallslega en ekki í krónutölum að sjálfsögðu til að reyna að fela þá staðreynd að þeir fá mest sem hafa mest.

Hitt var athyglisvert að hæstv. ráðherra er hér strax í varnarstellingum gagnvart þeim væntingum sem þessar breytingar kynda upp, gagnvart þeim þenslu- og verðbólguáhrifum sem þetta er líklegt til að hafa, þeirri olíu á þann eld sem þessi gjörningur ríkisstjórnarinnar því miður verður.

Sú málsvörn hæstv. ráðherra að vegna þess að þessar skattbreytingar séu að uppistöðu til samkvæmt kosningaloforðum eða stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og þar af leiðandi eigi áhrifin að vera komin fram, er ekki sterk. Fyrir það fyrsta eru áform í stjórnarsáttmála óútfærð. Það voru óútfærð áform og sérstaklega tekið fram að það ætti eftir að raða þessu niður á kjörtímabilið og ákveða hvernig það yrði gert, og Framsóknarflokkurinn hefur lagt áherslu á það. Það síðara er auðvitað að aðstæðurnar eru breyttar, verðbólguspárnar eru á uppleið, viðskiptahallinn er að vaxa. Það líður varla svo mánuður að einhver aðili, annaðhvort greiningardeildir hjá bönkunum eða fjármálaráðuneytið sjálft, sé ekki að endurmeta þjóðhagsforsendurnar þannig að það er sífellt í óhagstæðari átt gagnvart þessum breytingum. Þessi fátæklega málsvörn hæstv. fjármálaráðherra dugar því skammt en hitt er athyglisvert að hann skuli vera í þessum varnarstellingum gagnvart þessum þætti málsins strax frá byrjun.