131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:02]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er eins og vant er að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vill skammta manni hvað maður segir og hvenær maður segir það. Maður getur ekki fengið að ráða sínum eigin ræðutíma hér fyrir afskiptasemi þingmannsins, sem snýr svo þessu góða máli sem byggist á því að auka kaupmátt landsmanna upp í eitthvert spursmál um það að ríkisstjórnin sé í vörn. Ríkisstjórnin er ekki í vörn, hún er í mikilli sókn með þetta mál. Það er mikið framfaramál sem hér er verið að reiða fram, mikið framfaraspor sem mun efla og auka kaupmátt landsmanna á næstu árum svo um munar. En það er hins vegar gert með þeim hætti að það mun ekki tefla efnahagslegum stöðugleika í hættu og þess vegna er það rangt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði í blaði á laugardaginn, og ég var m.a. að vitna til án þess að ég nefndi það sérstaklega, að það sé hrikalegt efnahagslegt glapræði að ráðast í þessar breytingar. Hv. þingmaður sagði það að mig minnir í viðtali við Morgunblaðið. Ég er að segja að sú staðhæfing sé röng og þingmaðurinn ætti sjálfur að vera í vörn út af slíkum ummælum.