131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:46]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra svarar ekki þeim spurningum sem fyrir hann eru lagðar. Ég spurði hann hvort hann væri þeirrar skoðunar að aðvörunarorð sérfræðinga sem fram hafa verið borin, m.a. frá Hagfræðistofnun Háskólans og Seðlabanka Íslands væru hjóm eitt. Hæstv. fjármálaráðherra kemur hér og kýs frekar að fara með skop og fyndni eins og hann stundum er ágætur til en það er kannski ekki tækifæri til þess að gera það nákvæmlega núna.

Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra ákveðinna spurninga: Er ekkert að marka það sem þessir sérfræðingar segja? Hæstv. fjármálaráðherra treysti sér ekki til þess að svara því. Segir það ekki allt sem segja þarf um málflutning hæstv. ráðherra?

Auðvitað hefur hæstv. ráðherra verið í bullandi vörn einmitt út af þessu, út af því að hann er að lofa skattalækkunum langt inn í framtíðina og sérfræðingar hafa einmitt varað við því að lofað sé of miklum lækkunum án þess að jafnmikið af peningum sé tekið út úr kerfinu með niðurskurði hjá ríkinu. (Forseti hringir.) Ég vil að hæstv. ráðherra svari þessu: Ætlar hann að taka til niðurskurðar í ríkiskerfinu?