131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:54]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það var nokkur dirfska hjá hv. 1. þingmanni Reykv. n. að vísa til ummæla Samfylkingarinnar um skattamál fyrir síðustu kosningar vegna þess að skattamálin vöfðust alveg afskaplega mikið fyrir þeim flokki í þeirri kosningabaráttu. Eiginlega má segja að sett hafi verið fram ný stefna í hverri viku í skattamálum. Þegar Frjálslyndir höfðu tekið persónuafsláttinn upp á sína arma þá kom Samfylkingin á eftir. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn hafði lýst yfir vilja til að lækka matarskattinn þá kom Samfylkingin á eftir. Því var mjög erfitt að henda reiður á því hver afstaða Samfylkingarinnar væri í þessum efnum.

Ég velti því fyrir mér þegar ég hlustaði á hv. þingmann áðan hvort þar talaði formaður sama stjórnmálaflokks og sagði í landsfundarályktun í byrjun apríl 2003 rétt fyrir kosningar, að lækka skyldi tekjuskatt einstaklinga í áföngum og styðja betur við barnafjölskyldur með auknum barnabótum og lækkun jaðarskatta.

Gæti hv. 1. þingmaður Reykv. n. upplýst mig um það hvort þetta er ekki sá flokkur sem hann er í forustu fyrir?