131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:55]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er engu líkara en að hv. þm. Birgir Ármannsson, eins og ýmsir aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hér hafa talað í dag, sé svolítið sár yfir þeirri staðreynd að það mál sem Samfylkingin lagði mikla áherslu á í kosningabaráttunni, alveg eins og Sjálfstæðisflokkurinn, þ.e. lækkun matarskattsins, hefur verið stöðvað af samstarfsflokknum. Það liggur alveg ljóst fyrir að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn voru mjög sammála um það mál og þær yfirlýsingar hafa margsinnis komið fram í þessum sölum að það sé keppikefli Sjálfstæðisflokksins að ná málinu fram. Það hefur hins vegar ekki tekist. Menn eiga ekki að vera of sárir yfir því.

Já, svarið er já. Hér talar sami maður og talaði á landsfundi Samfylkingarinnar, sem að vísu var ekki haldinn í apríl, sami maður og tók hérna í ræðu áðan undir að það þyrfti að hækka barnabætur og lýsti því yfir að Samfylkingin mundi leggja fram tillögu um að þeirri ákvörðun yrði flýtt við meðferð þessa máls.