131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:52]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er oft kostur að ræða þessa hluti við sjálfstæðismenn því þeir hafa iðulega kjark í sér til að segja það sem þeir hugsa og upplýsa hvað er raunverulega á ferðinni. Þetta eru athyglisverðar vísbendingar sem hv. þm. Einar Oddur gefur um hinn dýpri pólitíska tilgang að baki aðgerðinni. Það stendur reyndar svolítið um það í þjóðhagsáætlun fjármálaráðuneytisins, þar kemur beint fram að ætlunin er að láta hlut hins opinbera af þjóðartekjum minnka á næstu árum. Auðvitað eru skattalækkanir aðferð til þess. Svo skera menn bara niður kostnaðinn á móti og velta honum yfir á notendur. Nú erum við farin að tala saman. En hvar er þá Framsóknarflokkurinn sem reyndi að komast í gegnum alla kosningabaráttuna síðast teljandi mönnum trú um að þetta væri allt saman hægt án þess að kæmi nokkurs staðar við? Hægt væri að gera allt fyrir alla í einu. Standa við alla samninga við öryrkja og aldraða en lækka líka skatta. Það er eitthvað annað að koma á daginn eins og kunnugt er.

Auðvitað er tekjuuppsveiflan ekki í hendi hv. þingmanna. (Forseti hringir.) Það getur farið harkalega (Forseti hringir.) niður sem fer upp.