131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:53]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hlutverk stjórnarandstöðunnar er að veita stjórnarflokkunum aðhald og gagnrýna og ég geri ekki athugasemd við það. Ég get þó ekki látið hjá líða að gera athugasemd við það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði um að hér væri einhver stórfelldur niðurskurður á ferðinni á næstunni. Hann nefndi sérstaklega heilbrigðis- og menntamál, en ég vil benda á að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er raunaukning til þessara málaflokka. Það er milli 4% og 5% raunaukning til heilbrigðis- og tryggingamála og rúmlega 5% raunaukning til menntamála. Þetta eru viðkvæmir málaflokkar sem við höfum viljað verja. Það er því ekki verið að skera niður, heldur er verið að hemja þá miklu þenslu sem er innibyggð í þessum málaflokkum. Auðvitað munu menn fara í forgangsröðun með þá fjármuni sem þeir hafa. Það er eðlilegt í kerfi sem er ekki staðnað og það er ekkert staðnað í heilbrigðiskerfinu né menntakerfinu.

Ég spyr því hv. þingmann: Mótmælir þingmaðurinn því að um raunaukningu sé að ræða til þessara málaflokka?