131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:54]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég var aðallega að tala um hverjar afleiðingar aðgerðarinnar yrðu og leiðangursins í heild sinni, af því að við ræðum um hann en ekki endilega fjárveitingar samkvæmt fjárlögum yfirstandandi árs. Það er auðvitað rétt að orðið hefur raunaukning á fjárveitingum til heilbrigðismála, en hvar er hún ekki? Það er málaflokkur sem alls staðar er að taka meira til sín í okkar heimshluta og gengur nógu illa samt að láta enda ná þar saman.

Hitt held ég að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir verði að horfast í augu við að það mun ekki gerast þannig að 23–26 milljarðar kr. eins og ég tel að séu samanlagt á ferðinni í töpuðum tekjum og auknum útgjöldum hjá ríkissjóði innan tveggja ára, sem eru 7%–7,5% af fjárlögunum eins og þau standa í ár, að þetta bara gerist sisvona án þess að nokkurs staðar þurfi að taka á á móti.

Hæstv. fjármálaráðherra segir þó: Það er alveg ljóst að þetta kallar á ýtrasta aðhald. Mig minnir að ég hafi heyrt ráðherra orða það a.m.k. einu sinni þannig, stundum talar hann um aðhald, stundum um ýtrasta aðhald. Það er svona fínt orðbragð yfir niðurskurð.