131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:56]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég bendi á orðaskiptin sem fram fóru rétt áðan á milli hv. þingmanna Steingríms J. Sigfússonar og Einars Odds Kristjánssonar um að að sjálfsögðu muni breytingin sem við ræðum hemja vöxt innkomu í ríkissjóð. Skattalækkanirnar gera það að sjálfsögðu. Það er stefnt að því.

Ég er ánægð að hv. þingmaður skuli viðurkenna að það sé raunaukning m.a. til heilbrigðis- og tryggingamála af því af málflutningi hv. þingmanns áðan mátti skilja sem svo að einhver geysilegur niðurskurður væri á ferðinni og allt yrði í miklum voða í heilbrigðis- og tryggingamálum og menntamálum. Það er alls ekki þannig. Að vísu höfum við áhyggjur af hinni miklu þenslu t.d. innan heilbrigðis- og tryggingakerfisins. Það er mörgum um að kenna. Það er mjög mikill vöxtur í lyfjum og ótrúlegur vöxtur í fjölda öryrkja sem mjög erfitt er að skýra og við stefnum í sömu spor og Svíar í þeim efnum. Það eitthvað sem þarf virkilega að skoða til að bæturnar nýtist þeim sem mest þurfa á þeim að halda. En ég þakka hv. þingmanni fyrir að viðurkenna að það er raunaukning til þessara málaflokka í fjárlögunum.