131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:57]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að biðja hv. þingmann um að oftúlka ekki orð mín. Ég var ekki að skrifa upp á að það væri raunaukning til allra þessara málaflokka í fjárlögunum, enda er það ekki. Það er nú reyndar þannig ef við tökum heilbrigðismálin og mælum þau á þann mælikvarða sem kannski er skástur og alþjóðlega viðurkenndur, þ.e. útgjöld til heilbrigðismála samkvæmt viðurkenndri flokkun sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, erum við ekki að auka þau núna. Við náðum líklega hámarki á árinu 2001. Þau eru í kringum 9% miðað við verga landsframleiðslu og eru tiltölulega stöðug núna. Það er staðreynd.

Ég var að vekja athygli á þeim staðreyndum sem líka blasa við okkur. Það virðist eiga að loka fjárlögunum þannig að það vanti 500 millj. kr. upp á að staðið sé við samninginn við öryrkja, montsamning Framsóknarflokksins frá því fyrir alþingiskosningarnar 2003. Hæstv. ráðherra Jón Kristjánsson er orðtekinn í auglýsingum í fjölmiðlum í dag þar sem vitnað er í að hann viðurkennir og skrifar upp á að það stendur upp á að efna þann samning. Það eru ekki (Forseti hringir.) peningar í það. Það á að taka 140 millj. kr. í aukin innritunargjöld o.s.frv.