131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:00]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er sjálfsagt þannig himinn og haf á milli hugmyndafræði og skoðana minna og hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar að við nálgumst ekki mikið með því að ræða málin og sérstaklega ekki á þessum nótum.

Hv. þingmanni er með öllu óskiljanlegt að hér skuli talað fyrir því að tekjur þurfi í sameiginlega sjóði, í sjóði ríkisins og sveitarfélaganna til þess að standa undir brýnum og þörfum velferðarverkefnum, til að fjármagna samneysluna, til þess að hægt sé að skapa manneskjulegt og gott samfélag og búa vel að öllum, til þess að halda uppi öflugu, jafnréttissinnuðu heilbrigðiskerfi og skólakerfi. Það er það sem ég er að tala hér um.

Hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni er það algerlega óskiljanlegt. Hann vill greinilega einhvern veginn öðruvísi þjóðfélag. Jú, hann vill bara að menn fái sem allra mest til sín og svo kaupi menn sér sjálfir væntanlega þjónustuna. Þá eru þeir á grænni grein sem mestar hafa tekjurnar, en hvað verður þá um hina? Ja, þá er stundum sagt: Fjandinn hirði þann síðasta.