131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:24]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel mjög eðlilegt að menn borgi skatta af tekjum sínum og að þeir sem hærri hafa tekjurnar greiði hærri skatta en þeir sem lægstar hafa tekjur. Ég hef ævinlega verið þeirrar skoðunar. Það skiptir engu máli hvort maðurinn er sjómaður, verkstjóri, læknir, ráðherra eða þingmaður. Ef hann hefur háar tekjur á hann að leggja meira til þjóðfélagsins en sá sem hefur lágar tekjur. Það er bara einfaldlega þannig að mínu viti.

Hv. þingmaður spurði: „Eiga menn ekki tekjur sínar?“ Jú, þeir eiga tekjur sínar og afla þeirra. En eins og ég sagði fyrr í svari mínu þá eiga menn að greiða til samfélagsins hærra hlutfall af tekjum sínum þegar þeir hafa miklar tekjur. Ekki er með nokkru móti hægt að halda því fram að milljón krónu maðurinn í þessu þjóðfélagi hafi neina sérstaka þörf fyrir tekjuskattslækkun. Engin rök hníga til þess. Ef við höfum svigrúm til þeirra skattalækkana sem hér er verið að boða þá eigum við í meira mæli að láta þær koma jafnt yfir þegnana í krónutölu en ekki þannig að þeir sem hafa hæstar tekjurnar fái tífalt meira í vasann en þeir sem hafa lægstu tekjurnar. Þetta er mín skoðun, hv. þingmaður. Ég veit að hv. þingmaður hefur allt aðra skoðun en ég í þessum málum. Hann telur að hátekjumennirnir eigi að halda öllu eins og þeim best hentar og að það muni síðar skila sér til þjóðfélagsins. Það hefur verið orðað svo að núllskattur skilaði mestu.