131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:27]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er mjög hlynntur því að fólk vinni í okkar þjóðfélagi. Ég hef hins vegar engar áhyggjur af því að fólk sem hefur góða vinnu og miklar tekjur þoli ekki að greiða til samfélagsins. Ég hef aldrei haft neinar áhyggjur af því, hv. þingmaður.

Ég hef engar áhyggjur af því að hátekjusjómenn sjái eftir því að greiða til samfélagsins frekar en aðrir íslenskir þegnar sjái eftir því að greiða til samfélagsins ef þeir hafa til þess getu. En ég er andvígur því að við séum að leggja byrðar á fólk sem hefur varla framfæri af sínum tekjum. Það finnst mér bara alls ekki eiga að eiga sér stað. Okkur hv. þingmann greinir greinilega mjög á þar því að hv. þingmaður hefur lagt til að menn greiddu hér allir, ef ég man rétt, 20% flatan tekjuskatt af öllum tekjum sínum Ég er ekki sammála þeirri stefnu, hv. þingmaður. Okkur greinir þar greinilega mjög á.