131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[17:08]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir heiðarlegt svar. Það er ljóst að Framsóknarflokkurinn hefur lagst gegn því að matarskatturinn verði lækkaður um helming, gegn aðgerð sem með þeim hætti kemur öllum til góða, en þess í stað beitt sér fyrir skattbreytingum sem koma eignafólki til góða og fólki eins og mér og hæstv. forsætisráðherra sem höfum eitthvað um 10 millj. kr. í árstekjur. Við fáum lækkun á tímabilinu, um trúlega 9% af lunganum af tekjum okkar.

Það er forgangsröðun Framsóknarflokksins. Þar er fólk ekki í fyrirrúmi heldur eignamenn. Það má hverjum manni vera augljóst. Það er um það sem hér er deilt, hæstv. forsætisráðherra.

Af hálfu Samfylkingarinnar er ekki um það deilt hvort hér sé svigrúm til skattalækkana. Það teljum við vera. En við teljum skynsamlegt að grípa til skattalækkana sem annars vegar koma öllum almenningi vel en ekki sérstaklega eignafólki og hátekjumönnum, eins og mér og þér, og hins vegar lækkun á matarverði sem vinnur gegn þeirri verðbólgu sem ég trúi og treysti að hæstv. forsætisráðherra hafi áhyggjur af að er nú komin í 3,8%. Er þó þenslan enn ekki í hámarki heldur verður það á næsta ári og hinu þar næsta. Við þekkjum á Íslandi hvaða afleiðingar það hefur ef við missum tökin á verðlagsþróuninni og verðbólgan fer af stað, með skuldir heimilanna eins og þær eru. Ef þær þurfa síðan að sæta hækkunum vegna þess að, eins og ríkisstjórnin gerði árið 2000, menn missi tökin á verðlagsþróuninni, missi t.d. vísitöluna upp um 9% á einu ári eins og gerðist, þá getur það haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar (Forseti hringir.) fyrir skuldir heimilanna í landinu og afkomu barnafjölskyldna.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill minna hæstv. ráðherra og háttvirta þingmenn á að beina orðum sínum til forseta með viðeigandi hætti en ávarpa ekki hver annan.)