131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[17:10]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Háttvirtur þingmaður segir að þetta gagnist fyrst og fremst eignafólki og hátekjufólki. Það er ekki rétt. Ég var að útskýra fyrir háttvirtum þingmanni áðan að niðurfelling eignarskattsins kemur sér sérstaklega vel fyrir lágtekjufólk sem á eignir. Það er gamla fólkið. Það liggur alveg ljóst fyrir að helmingurinn af eignarskattinum er greiddur af fólki sem er yfir sextugu.

Svo vil ég minna háttvirtan þingmann á að núverandi stjórnarflokkar tóku upp nokkuð sem heitir fjármagnstekjuskattur, sem var ekki tekinn upp fyrr en í tíð þessara flokka. Hann var ekki tekinn upp fyrr. Það var sett saman mikil skýrsla um það á sínum tíma og það var talið æskilegt. Háttvirtur þingmaður ætti að lesa þessa skýrslu. Um það varð víðtæk samstaða að með því að taka upp fjármagnstekjuskatt væri eðlilegt að stefna að niðurfellingu eignarskatts. Talið var eðlilegra að skatturinn væri lagður á tekjur af fjármagninu en eignina sjálfa. Það vill svo til að ýmsar eignir, við skulum segja eldra fólks, gefa engar tekjur af sér vegna þess að fólkið býr þar. Þessi tilhögun er því beint framhald af skýrslunni um fjármagnstekjuskattinn sem, ef ég man rétt, allir aðilar á Alþingi áttu aðild að.

Ég man ekki betur en að allir hafi verið sammála um að það væri rétt (Forseti hringir.) að stefna að því leggja eignarskattinn niður.