131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:05]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég frábið mér við þessa umræðu að hv. þingmaður eigni mér þessar skoðanir. Það er engin innstæða fyrir því og hv. þingmaður hefur ekki efni á því ef hann hefur hlustað á málflutning minn áðan. Hv. þingmaður ætti ekki að tala mjög hátt um vaxtabætur sem gagnast skuldugum heimilum og fólki með meðaltekjur og þeim hópum sem hann nefndi í þjóðfélaginu. Það er verið að skerða vaxtabæturnar um 600 millj. kr. á þessu ári, 300 millj. kr. á næsta ári. Það er ráðist af fullri hörku að skuldugum heimilum í landinu.

Ég vil ekki þjóðfélag sem er þannig, eins og var í skattagögnum á þessu ári, að 1% þeirra ríkustu, sem eru rúmlega 5%, hafa 88% af tekjum sínum, eða 54 millj. kr., í fjármagnstekjur en borga af því í fjármagnstekjuskatt 18% en hafa 7 millj. kr. í launatekjur. Þeir greiða sem sagt að meðaltali aðeins 12% af heildartekjum sínum í skatt meðan fólk með lágar tekjur greiðir 25–27%. Þetta er ekki sanngjarnt þjóðfélag.

Þetta er það þjóðfélag sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur skapað. Hann hefur skapað aðstæður og þjóðfélag sem gerir vel við hina ríku og alltaf betur og stöðugt meira á kostnað þeirra sem minna hafa. Slíkt skattkerfi byggir á fullkominni ósanngirni og óréttlæti. Þetta er ekki það þjóðfélag jöfnuðar sem við jafnaðarmenn viljum sjá.

Ég er alveg hissa á framsóknarmönnum að vera svona leiðitamir með ykkur í því hvernig þið sjálfstæðismenn hafið breytt skattkerfinu þar sem fyrst og fremst er hugsað um þá sem eiga fjármagn og eignir á kostnað þeirra sem hafa eingöngu framfærslu af lífeyri eða launum. Það er þjóðfélag sem ég vil ekki sjá og það er skattkerfi sem á að fara burt og verður það fyrsta sem við breytum þegar við erum komin til valda, frú forseti.