131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:12]

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Umræðan í dag hefur eins og við var að búast farið vítt og breitt um sviðið enda má segja að frumvarpið sem hér er til umræðu sé eitthvert það mikilvægasta mál sem við höfum fengið til umfjöllunar á þessu þingi.

Hér birtast nokkur lykilatriði úr stefnumörkun núverandi ríkisstjórnar, í fyrsta lagi stórfelld lækkun tekjuskatts á kjörtímabilinu, í öðru lagi umtalsverð hækkun barnabóta og samhliða þessu eru aðgerðir sem fela í sér að jaðaráhrif í skattkerfinu eru minnkuð. Allt eru þetta atriði sem voru þungvæg í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og þess vegna er að vonum að umræðan um málið snúist um grundvallaratriði í ríkisfjármálum og stjórnmálum.

Í þessari umræðu hefur líka birst mjög skýr greinarmunur milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ríkisstjórnin gerði það eitt af sínu helstu stefnumálum að lækka skatta í landinu en þegar að kemur rís stjórnarandstaðan upp og segir ýmist að skattalækkanir eigi ekki rétt á sér eða þá að þetta séu ekki réttu lækkanirnar og ekki á réttum tíma. Ég held að almenningur í landinu geti af þessu séð í grundvallaratriðum hver er munurinn á afstöðu núverandi stjórnarflokka og stjórnarandstöðu til skattamála. Það er grundvallarmunur.

Þegar kjósendur gengu að kjörborði vorið 2003 skiptu skattamál verulegu máli. Núverandi stjórnarflokkar fengu áframhaldandi umboð, m.a. á grundvelli fyrirheita um skattalækkanir og nú er stigið stórt skref í að hrinda þeim í framkvæmd. Skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar hafa reyndar að hluta komið fram og munu koma skýrar fram síðar en frumvarpið sem hér er felur í sér verulega stórt skref í þá átt að hrinda í framkvæmd þeim áherslum.

Það er kannski ástæða til að rifja upp á þessu tímapunkti í umræðunni að fyrir um það bil ári lágum við þingmenn stjórnarflokkanna, ekki síst við þingmenn Sjálfstæðisflokksins, undir ámæli, sérstaklega frá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar sem komu hér hver á fætur öðrum í ræðustól og spurðu: Hvar eru skattalækkanirnar? Þá var okkar helsti glæpur að því er virtist að hafa ekki komið inn á þingið með skattalækkunarfrumvörp þá þegar.

Nú hins vegar þegar svo ber við að skattalækkunarfrumvörpin koma fram þá er komið og sagt: „Nei, þetta er allt of mikið. Þetta eru ekki réttu skattalækkanirnar. Þetta er ekki á réttum tíma.“ Maður veltir fyrir sér hvert samræmið er í málflutningi talsmanna þessa flokks.

Það hefur reyndar verið nokkuð erfitt að átta sig á stefnumörkun Samfylkingarinnar í skattamálum. Það var afskaplega erfitt að átta sig á henni fyrir síðustu kosningar og sú lína sem hefur verið tekin núna eftir kosningar hefur ekki að öllu leyti verið í samræmi við það sem sagt var fyrir kosningar.

Það er hægt að fara yfir þetta í stórum dráttum. Ég held að ég skauti nú nokkuð hratt yfir. En helsta áherslumál Samfylkingarinnar í skattamálum núna virðist vera lækkun á lægra þrepi virðisaukaskatts, matarskattinum svokallaða. Það er kannski rétt að halda því til haga að þetta atriði kom ekki inn í kosningabaráttu Samfylkingarinnar fyrr en frekar seint í kosningabaráttunni. Hæstv. fjármálaráðherra vitnaði til þess hér fyrr í dag að þegar Samtök verslunar og þjónustu leituðu til stjórnmálaflokkanna í marsmánuði 2003 til þess að grennslast fyrir um stefnumál þeirra þá svaraði Samfylkingin því skýrt neitandi þegar spurt var um hvort til stæði að fara í breytingar á virðisaukaskattskerfinu.

Í landsfundarályktun Samfylkingarinnar frá því í byrjun apríl 2003 var ekki minnst á breytingar á virðisaukaskattskerfinu. En þegar Sjálfstæðisflokkurinn var búinn að leggja fram stefnu sína í þessum efnum, búinn að leggja sínar áherslur á borðið þá sneri Samfylkingin allt í einu við blaðinu og fór að tala um lækkun á matarskattinum og nú er svo komið hjá Samfylkingunni sem talaði mjög fjálglega um skattalækkanir fyrir kosningar að það eitt stendur eftir að lækka beri matarskattinn. En eins og ég sagði var það ekki inni í þeim stefnumálum sem Samfylkingin lagði áherslu á á landsfundi sínum í apríl 2003. Það svona breyttist einhvern veginn á miðri leið.

Sama má í rauninni segja um tekjuskattsþáttinn. Þegar landsfundur Samfylkingarinnar kom saman í apríl, rétt rúmum mánuði fyrir kosningar, þá var það gert að grundvallaratriði í skattamálum að lækka skyldi tekjuskatt einstaklinga í áföngum og styðja betur við barnafjölskyldur með auknum barnabótum og lækkun jaðarskatta. Þetta stefnumál, sem lagt var fram á landsfundi Samfylkingarinnar í apríl 2003 er horfið í dag. Það stendur reyndar eftir að Samfylkingin styður breytingar á barnabótakerfinu. En áhersluatriðið um að lækka skuli tekjuskatt einstaklinga er horfið. Það var staðfest nú af síðasta hv. ræðumanni, hv. 2. þm. Reykjavíkurkjördæmis suður, að það væri ekkert áhersluatriði hjá Samfylkingunni að lækka tekjuskattinn. (JóhS: Þið skrökvið svo mikið í ...) Þetta er skjalfest í landsfundarályktun Samfylkingarinnar frá byrjun apríl 2003 og það stemmir illa við það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði hér í ræðu rétt áðan. Þannig að ef einhver er missaga í þessu máli þá er það Samfylkingin.

Einnig var hér áðan spurt um afstöðu Samfylkingarinnar til fjölþrepa skattkerfis og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði að það væri ekki á stefnuskrá Samfylkingarinnar þótt hún reyndar tæki ekki alfarið fyrir að slíkt gæti komið til greina einhvern tíma í framtíðinni. Ég minnist þess að í kringum páska á síðasta ári, páska 2003, í miðri kosningabaráttunni varpaði helsti talsmaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherraefni þess flokks fram þeirri hugmynd að það ætti að stefna inn í fjölþrepa skattkerfi. Síðan nokkrum dögum seinna var sú stefna eiginlega dregin til baka eða tónuð niður á þeirri forsendu að það væri ekkert stefnumál sem Samfylkingin legði fram fyrir þessar kosningar heldur svona einhver hugmynd sem ætti að ræða, hugmynd sem menn vildu skoða einhvern tíma á kjörtímabilinu. Eftir stóð að annaðhvort gátu kjósendur valið það úr ummælum einstakra talsmanna Samfylkingarinnar sem þeim hentaði eða þá, eins og ég held að hafi nú kannski verið raunin, að fólk áttaði sig ekkert á því hvað Samfylkingin var að fara í skattamálum og varð þeim flokki þó nokkur fótafjötur í þeirri kosningabaráttu.

Varðandi aðra þætti má nefna að sú stefnumörkun sem hér liggur fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar og studd er af stjórnarflokkunum báðum felur í sér verulega lækkun á tekjuskatti. Það er lækkun sem kemur til með að koma öllum til góða. Sýnt hefur verið sýnt fram á að allir tekjuhópar í þjóðfélaginu munu njóta góðs af þessari skattalækkun. Því til viðbótar fylgja þessu ákveðnar aðgerðir eins og breytingar á barnabótakerfinu sem sérstaklega beinast að þeim hópum.

Skattalækkunaraðgerðirnar koma fleirum til góða. Hér var minnst á í andsvörum áðan að eignarskattsbreytingin sem reyndar er stórlega vanmetinn þáttur, held ég, í þessari umræðu kemur til með að skila sér hvað helst til tekjulítilla einstaklinga sem eiga skuldlausar eignir og ekki stórar eignir heldur það sem maður mundi kalla venjulegar íbúðir. Þarna er um að ræða stóra hópa eldra fólks sem býr í skuldlausum eignum en hefur ekki sömu tekjur og áður. Þessi skattalækkun mun helst skila sér til þeirra. Hæstv. forsætisráðherra vísaði til niðurstöðutalna frá fjármálaráðuneytinu hér áðan sem sýna þetta ótvírætt, að stærstu hópar greiðenda eignarskatts eru þeir sem við mundum ekki telja hátekjuhópa heldur frekar lágtekjuhópa og um leið er stærstur hópur greiðenda eignarskatts fólk sem komið er á efri ár og fjölmennast í hópi þeirra sem komnir eru á eftirlaunaaldur. Þetta er stórlega vanmetið í umræðunni, virðulegi forseti.

Annað atriði sem mér finnst ástæða til þess að vekja athygli á í þessari umræðu er málflutningur stjórnarandstöðunnar sem gengur út á það að skattalækkanir við núverandi efnahagsaðstæður, eins og sagt er, séu stórfellt glapræði, eins og einn hv. talsmaður stjórnarandstöðunnar hér í dag komst að orði, stórfellt glapræði. Þessi sjónarmið byggja á þeim grundvallarmisskilningi að mínu mati að einstaklingar fari að jafnaði verr með sitt fé og eyði því á óskynsamlegri hátt en opinberir aðilar. Ég verð að mótmæla þessu sjónarmiði. Ég held að ekki sé hægt að ganga út frá því sem vísu að ef meira fé verður eftir í höndum þeirra sem afla þess, einstaklinganna, þá verði þeim peningum frekar varið í eyðslu en ef peningarnir sætu eftir hjá hinu opinbera.

Oft hefur verið vísað í það í þessari umræðu að mikil fylgni er milli þess í vestrænum hagkerfum, þ.e. að eyðslustig hins opinbera, útgjaldastigið, helst ótrúlega mikið í hendur við tekjustigið þannig að þegar skatttekjur aukast er það yfirleitt ekki svo að þeim peningum sé safnað inn á einhverja biðreikninga sem síðan eigi að nota í harðæri heldur er það þannig að kröfurnar um aukin útgjöld aukast. Ég verð að segja að ég get ekki séð annað en að slíkt geti alveg eins falið í sér þenslu og það að einstaklingar haldi stærri hluta tekna sinna áfram í sínum höndum.

Þegar síðan vísað er til þess að aðstæður séu slíkar að nú sé ekki rétti tíminn til skattalækkunaraðgerða þá hlýtur maður að spyrja eins og oft hefur verið spurt áður: Hvenær er þá rétti tíminn? Er rétti tíminn til að lækka skatta þegar samdráttur er í þjóðfélaginu og tekjur ríkisins dragast saman? Er þá almenn stemning fyrir því að lækka skatta? Nú er það svo að skattkerfið er þannig upp byggt að ef tekjur í þjóðfélaginu aukast þá aukast skatttekjurnar sem renna til ríkisins. Þetta þekkjum við. Þetta skýrir það m.a. að skatttekjur ríkis og raunar sveitarfélaga líka hafa aukist verulega á undanaförnum árum vegna þess að hér hefur ríkt tiltölulega gott ástand í efnahagsmálum og tekjur í þjóðfélaginu hafa aukist.

Nú velti ég fyrir mér: Mundu menn almennt telja að það væri frekar lag á því að lækka skatta þegar aðstæður eru með þeim hætti að tekjur í þjóðfélaginu eru að dragast saman? Telja menn að ríki og sveitarfélög séu þá í stakk búin til þess að mæta lækkuðum tekjum? Ég held ekki. Ég held að þeir sem tala á þann veg að núna sé ekki rétti tíminn til að lækka skatta þegar vel gengur í efnahagslífinu noti það eiginlega sem tylliástæðu vegna þess að þeir eru í hjarta sínu á móti því að lækka skatta. Ég get ekki dregið aðrar ályktanir en þær.

Þegar maður veltir þessu fyrir sér, að rangt sé að lækka skatta við núverandi efnahagsaðstæður, þá spyr maður sig: Hvað gerist núna þegar á næstu árum er fyrirsjáanlegt að tekjur í þjóðfélaginu muni stóraukast, þjóðarkakan muni stækka, ef hlutfall hins opinbera af kökunni helst sama eða eykst? Þá mun það gerast, er ég afskaplega hræddur um, að þrýstingurinn á útgjöld muni halda áfram að aukast. En hvernig á að mæta þeirri stöðu ef síðan tekjurnar dragast saman? Þá eru menn búnir að stilla útgjaldaþrepið hjá ríkinu mjög hátt í góðærinu. Munu menn vera í stakk búnir til þess að draga þessi opinberu útgjöld saman ef síðan harðnar á dalnum? Ég held ekki.

Ég held þvert á móti, virðulegi forseti, að núna sé akkúrat hárrétti tíminn til þess að lækka skatta og ég held, eins og fram hefur komið bæði í máli hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra hér, að við búum við þær einstöku aðstæður núna að geta lækkað skatta án þess að draga úr útgjöldum ríkisins. Með því er auðvitað ekki sagt að ekki verði gætt aðhalds því að langtímastefnumótun ríkisins í ríkisfjármálum gengur út á það að gæta aðhalds. Það aðhald birtist í því að samneyslan á ekki að aukast umfram 2% á ári á næstu árum, en gert er ráð fyrir því að landsframleiðslan muni vaxa mun meira þannig að hlutfall samneyslunnar af landsframleiðslu mun þar af leiðandi minnka.

En það þýðir ekki, eins og haldið hefur verið fram ítrekað í þessari umræðu, að farið verði út í niðurskurð. Það verður ekki niðurskurður. Það er aðeins verið að tala um að auka samneysluna minna en landsframleiðsluna, ekki að fara í neina liði endilega og skera þá niður. Ég reyndar veit að fleiri hv. þingmönnum er farið eins og mér að við sjáum nú víðar þætti hjá hinu opinbera sem mætti skera niður. En það er ekki forsenda fyrir þessum áformum. Það er alls ekki forsenda. Forsendan er einvörðungu sú að auka samneysluna ekki jafnmikið og framleiðslan mun aukast. Kakan stækkar. Hlutfall ríkisins af kökunni mun minnka, hlutfall en ekki rauntölur. Það verður því ekki um niðurskurð að ræða heldur lægra hlutfall sem stafar af því að ríkið tekur minna til sín.

Ég held, virðulegi forseti, að það sé hollt fyrir okkur að hafa þetta í huga við þessa umræðu. Ég held að það sé hollt fyrir okkur að skoða þessa þætti og ég held að það sé hollt fyrir kjósendur og almenning í landinu að velta því fyrir sér hvernig haldið væri á málum í þessum efnum ef þeir flokkar sem nú eru í stjórnarandstöðu væru við völd.