131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[18:33]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er augljóst að Framsóknarflokkurinn hefur haft betur í glímunni við Sjálfstæðisflokkinn og stöðvað fyrirætlanir Sjálfstæðisflokksins um lækkun á matarskatti og loforð Sjálfstæðisflokksins um afnám stimpilgjalda. Ég legg til við þessa umræðu að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins fari varlega í að rifja upp hvað menn hafa sagt í þessu efni.

Ég stend við það að áherslur Samfylkingarinnar í þessu efni eru ábyrgar út frá sjónarmiðum um ríkisfjármál og efnahagsstefnu og koma öllum skattgreiðendum til góða. Sá er mergurinn málsins. Þegar hv. þm. kemur hér upp og segir að það að skerða tekjur ríkisins með ákvörðun núna, þegar við erum að fara inn í þetta þensluskeið, um á þriðja tug milljarða króna sé varlega að verki staðið er hv. þm. áhættusæknari en ég hef talið hann vera til þessa. Sannarlega er það ekki varlega farið að skerða svo harkalega á svo stuttum tíma tekjur ríkisins. Forsendan fyrir því að það geti tekist farsællega er ekki sú að ríkið eyði peningunum eitthvað skynsamlegar en einstaklingarnir, heldur einfaldlega sú staðreynd að þessum 22 milljörðum má ekki bæði fólkið í landinu eyða og ríkið. Þess vegna verður að skerða útgjöld á móti þegar skattalækkunin er gerð. Við í Samfylkingunni teljum einfaldlega óhóflegt að þrengja svo mjög að samneyslunni og viljum þess vegna ganga skemur og varlegar til lækkunar á tekjuskatti á þessu kjörtímabili þó að við teljum það fyllilega koma til greina.