131. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[20:26]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það vakti athygli mína að hv. þingmaður kaus að svara ekki spurningunni sem fram var sett heldur svaraði með annarri spurningu um hvar ég fyndi því stað að Framsóknarflokkurinn vildi ekki lækka virðisaukaskatt á matvæli.

Því er einfalt að svara. Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt þetta, flestallir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem talað hafa í skattaumræðu hafa sagt þetta og það liggur hreint fyrir og er algjörlega óumdeilt að Framsóknarflokkurinn hefur lagst gegn því að lækka virðisaukaskatt á matvæli núna. Ég heyrði ekki betur en hv. formaður Framsóknarflokksins og hæstv. forsætisráðherra hefðu sagt þetta í umræðu áðan líka.

Ég endurtek spurninguna og vona að hv. þingmaður treysti sér til að svara henni með málefnalegri hætti en hann gerði í fyrra andsvarinu. Við munum þá heyra af hverju Framsóknarflokkurinn neitar að taka þátt í því að lækka matarverð á Íslandi. Getur það hugsanlega verið vegna þess að þeir eru á móti tvísköttun? Getur það verið vegna þess að fólk er búið að borga skatta af þeim peningum sem það notar til að kaupa mat og þess vegna megi ekki lækka virðisaukaskattinn á matvæli? (Gripið fram í.)

Ég vil lækka virðisaukaskatt á matvæli um helming frá því sem nú er. Það hefur aldrei verið sagt sem fram kom hjá hv. þingmanni að Samfylkingin hefði haldið því fram að matarkarfan hjá bankastjóranum og láglaunamanninum kostaði það sama. Það sem hefur verið sagt er einfaldlega að láglaunamaðurinn notar stærra hlutfall tekna sinna til að kaupa inn nauðþurftir en bankastjórinn. Því held ég að hv. þingmaður geti ekki mælt í mót og þar af leiðandi hljóti lækkun á virðisaukaskatti á matvælum að koma láglaunamanninum betur en bankastjóranum.